Náttúruminjasafn Íslands vinnur nú að undirbúningi og frumhönnun á náttúrusýningu í um 350 m2 rými á milligólfi á nýrri 2. hæð í aðalrými Perlunnar. Verkefnið er fyrri áfangi af tveimur og er skv. samkomulagi sem undirritað var 27. júní s.l. milli fulltrúa Perlu norðursins ehf. og Náttúruminjasafns Íslands.

Fyrsta fundinn sátu (frá vinstri): Droplaug Ólafsdóttir, Margrét Hugadóttir, Sólrún Harðardóttir, Bryndís Sverrisdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Skúli Skúlason, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, Hilmar J. Malmquist, Snorri Sigurðsson og Sigrún Helgadóttir. Ljósm. ÁI.

Í gær boðaði Náttúruminjasafnið til fyrsta fundar til undirbúnings sýningahaldinu en á fundinum voru fulltrúar í sýningarstjórn ásamt fræðslu- og fagráði, en nokkrir voru utan bæjar eða í sumarfríi. „Þetta var góður fundur, hópurinn samtaka og margar fínar hugmyndir á lofti“, sagði Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins. „Markmiðið er að gestir sýningarinnar upplifi aðdáun og væntumþykju um náttúru landsins og fræðist um mikilvægi náttúrunnar og náttúrulegra ferla sem undirstöðu lífs og forsendu fyrir farsælli búsetu í landinu.“

Fyrri áfanginn felst í skilgreiningu á innihaldi og efnistökum sýningarinnar, frumhönn­un á framsetningu sýningaratriða, kostnaðaráætlun um framleiðslu og uppsetningu, lýsingu á að­gangs­­stýringu og gestaflæði um rýmið ásamt framkvæmdaáætlun fram að opnun sýningarinnar sem er fyrirhuguð 1. maí 2018. Þessum áfanga skal vera lokið eigi síðar en 15. október 2017. Fáist verk­efnið fjármagnað í meðförum Alþingis á haustdögum tekur við annar áfangi sem felst í fullnaðar­hönnun sýningarinnar, framleiðslu og í kjölfarið uppsetningu.

Sýningarstjórn

Sýningarstjórn í fyrri áfanganum skipa Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningahönnuður og sýningar­stjóri verkefnisins, Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Skúli Skúlason pró­fessor, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, Bryndís Sverrisdóttir safnfræðingur og Álfheiður Ingadóttir líffræðingur ritstjóri verkefnisins. Sýningarstjóri fer fyrir sýningarstjórn.

Fag- og fræðsluráð

Hlutverk fag- og fræðsluráðs er að vera sýningarstjórn til ráðgjafar í fyrri áfanga um efnistök og inni­hald sýningarinnar á vegum safnsins. Fag- og fræðsluráð skipa: Árni Hjartarson jarðfræðingur, Bryndís Marteinsdóttir líffræðingur, Droplaug Ólafsdóttir líffræðingur, Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur, Margrét Hugadóttir kennari, Sigrún Helgadóttir líffræðingur og kennari, Sólrún Harðardóttir námsefnishöfundur, Snorri Sigurðsson líffræðingur og Snorri Baldursson líffræðingur.