Sunnudaginn 25. september klukkan 14 mun Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Í leiðsögninni verður áhersla lögð á hinn sjónræna þátt náttúru í menningu landsins og spáð einkum í þá muni á sýningunni sem eru á vegum Náttúruminjasafnsins og systurstofnunarinnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í leiðsögninni verður geirfuglinum gerð sérstök skil en í sumar var opnuð sérsýning um hann sem ber heitið Geirfugl †Pinguinus impennis. Aldauði tegundar – síðustu sýnin, og er þar á ferð samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Augun

Augu  síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey 18944. Ljósm. Ólöf Nordal.

Geirfuglinn er

Geirfuglinn – eign íslensku þjóðarinnar, sem keyptur var fyrir söfnunarfé 1971, er til sýnis í Safnahúsinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á sérsýningunni gefur m.a. að líta geirfuglinn sem þjóðin eignaðist árið 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: ljósmyndaröð af innyflum síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey árið 1844 og myndskeið sem sýnir fuglaveiðar fyrir um hálfri öld í Vestmannaeyjum.

Höfum við lært af fyrri mistökum?

Sérsýningunni um geirfuglinn er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Hafa verður í huga að vitneskja og þekking á náttúru og umhverfi var takmarkaðri þá en nú. Samt sem áður eiga núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, í vök að verjast vegna veiða, búsvæðaröskunar og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.

Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim – er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Grunnsýningin stendur yfir í fimm ártil ársins 2020. Sérsýningin um geirfuflinn var opnuð 16. júní s.l. og stendur í eitt ár. 

Leiðsögnin er ókeypis og allir eru velkomnir!

Hér má sjá efni um sýninguna í Safnahúsinu á vef Náttúruminjasafnsins.