Út er komið 3.-4, hefti Náttúrufræðingsins, 86. árgangs með fjölda áhugaverðra greina eftir leika og lærða um náttúru Íslands.

Austurveggur Jökulsárgljúfurs, skammt norðan við Hafragilsfoss prýðir forsíðu heftisins.

Í forsíðugreininni, Eldar í Öskjukerfi fyrir um 11 þúsund árum, segir frá rannsókn Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings, á lengstu gígaröð landsins, Sveina- og Randarhólagígaröðinni í norðanverðu Öskjukerfinu, en nýverið tókst með hjálp gjóskulaga að tímasetja hraunið og fá fram áreiðanlega tímasetningu gossins.

Ný úttekt á útbreiðslu birkis og ástandi þess fór fram 2010–2014, sú þriðja í röðinni, og leiðir í ljós að náttúrulegt birki á Íslandi hefur verið í töluverðri sókn á síðustu áratugum eftir margra alda hnignunarskeið.

Hraunhellar hafa mikið aðdráttarafl en vaxandi ágangur, sem m.a. má rekja til nákvæmra upplýsinga um hvar spennandi hella er að finna, hefur orðið til þess að sumir þekktustu hellar landsins eru nú rúnir öllu skrauti sínu og fegurð. Í greininni, Surtshellir í Hallmundarhrauni, er sagt frá könnun Surtshellis fyrr á öldum, en einnig frá rannsókn á brotstöðum dropsteina í Stefánshelli og Víðgelmi en dropsteinar og dropstrá voru friðlýst 1958 og 1974.

Af öðru efni má nefna grein um samlífi sæfífils og rækju sem neðansjávarljósmyndir varpa ljósi á og aðra um rannsóknir á radoni í hveragasi og bergi. Sagt er frá mælingu á fjarlægð fastastjörnunnar 61 Cygni frá Íslandi, sérkennilegum fyrirbærum í íslenskri náttúru sem nefnast stallabrekkur eða paldrar.

Loks má nefna ritrýni um stórvirkið Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar eftir Snorra Baldursson og leiðarann sem fjallar um viðbrögð við PISA könnuninni 2015.

Hér má nálgast efnisyfirlit nýja heftisins

Meira um efnið hér!