Náttúrufræðingurinn, 1.–2. hefti 88. árgangs, er kominn út í nýjum búningi en síðast var útliti tímaritsins breytt 2002. Í heftinu er m.a. eftirfarandi efni um rannsóknir og náttúrufar á Íslandi:

Eldgos á fyrstu öldum Íslandsbyggðar
Á þremur fyrstu öldum Íslandsbyggðar urðu a.m.k. 20 eldgos á gosbeltinu á suðurhálendi Íslands. Guðrún Larsen fjallar um þetta tímabil og áhrif gosanna í Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslum.

Skollakoppur: Líffræði, veiðar og landrof
Ígulkerið skollakoppur kemur við sögu í tveimur greinum í nýja Náttúrufræðingnum. Guðrún G. Þórarinsdóttir og Karl Gunnarsson skrifa yfirlitsgrein um líffræði skollakopps og veiðar á honum sem hófust 1984. Þá fjallar Valdimar Össurarson um strandrof í Rauðasandshreppi sem hann rekur til offjölgunar skollakopps.

Eitrað gegn skógarkerfli
Brynhildur Bjarnadóttir, Bjarni Diðrik Sigurðssonog Bjarni E. Guðleifsson skýra frá tilraunum sem gerðar voru í Eyjafirði þegar reynt var að hefta útbreiðslu skógarkerfils með eitrinu glýfosfati. Niðurstaðan er sú að dýrt og erfitt sé að uppræta skógarkerfil og að forðast eigi að nota plöntueitur.

Gróður í beitarfriðuðum hólmum
Gróðurfar í beitarfriðuðum hólmum gefur vísbendingu um hvernig gróður landsins hefur þróast án víðtækra áhrifa mannsins. Sigurður H. Magnússon og Hörður Kristinsson hafa rannsakað gróður í slíkum hólmum og telja mikilvægt að vernda þá.

Af öðru efni í ritinu má nefna skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2017 og eftirmæli um Svein P. Jakobsson jarðfræðing, en hann lést 12. júlí 2016.

Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins.

Og hér má finna ítarlegri upplýsingar um efnið og eldri hefti.