Ný grein um landnám sindraskeljar við Ísland

 

Fyrir um þremur árum greindum við á heimasíðu Náttúruminjasafnsins frá fundi hnífskelja í Hvalfirði, þ.e. samlokutegund sem ekki hafði áður fundist við Ísland ef frá er skilin fundur náskyldrar tegundar árið 1957 austur í Lónsfirði. Nýlega birtist grein eftir okkur samstarfsfélagana með rannsóknaniðurstöðum um fund hnífskeljanna í vísindaritinu BioInvasion Records og ber greinin heitið Mollusc on the move; First record of the Newfoundland’s razor clam, Ensis terranovensis Vierna & Martínez-Lage, 2012 (Mollusca; Pharidae) outside its native range.

Vísindagreinin segir frá fyrstu staðfestu eintökum af tegundinni sindraskel (Ensis terranovensis) hér við land. Fundurinn er um margt áhugaverður því tegundin hefur hingað til aðeins fundist við austurströnd N-Ameríku, en þar var henni fyrst lýst við Nýfundnaland árið 2012. Hér er því um fyrsta fund samlokunnar að ræða utan náttúrulegra heimkynna tegundarinnar.

Um er að ræða samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar, Náttúruminjasafns Íslands, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands. Náttúrustofa Suðvesturlands hefur umsjón með vöktun og rannsóknum sindraskelja við Ísland og má lesa betur um verkefnið á vef Náttúrustofu Suðvesturlands.

Greinina í BioInvasion Records má nálgast á https://www.reabic.net/journals/bir/2023/3/BIR_2023_Gunnarsson_etal.pdf.

Sindraskel, Ensis terranovensis. Mælistika: 2 cm.