Vetrarhátíð er hafin og af því tilefni spjalla sérfræðingar frá söfnum sem eiga verk í Safnahúsi á sýningunni Sjónarhorn við gesti kl. 20-21 í kvöld föstudaginn 2. febrúar.

Viðar Hreinsson

Frá Náttúruminjasafni kemur Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur. Hann spjallar um listirnar, náttúruna og vísindin og samspilið þar á milli með áherslu á Jón lærða Guðmundsson, en Viðar er höfundur bókar um Jón sem nefnist Jón lærði og náttúrur náttúrunnar og kom út í nóvember 2016. Viðar mun ganga um sýninguna með gestum Safnahúss og stoppa við valda sýningarhluta.

Spekingar spjalla

Söfnin sem standa að sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim eru sex talsins og  verða sérfræðingar frá öllum stofnununum á staðnum í kvöld.

Frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður Gísli Sigurðsson til viðræðu um þann kjörgrip sem nú er í öndvegi. Jóhanna Guðmundsdóttir, frá Þjóðskjalasafni, spjallar um efni sérsýningarinnar Spegill samfélagsins 1770. Frá Landsbókasafni mætir Gunnar Marel Hinriksson og ræðir einkum Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar og um galdra. Frá Þjóðminjasafni kemur Ágúst Ó. Georgsson og talar um myndablað sem sýnir helstu störf fólks til sveita á síðari hluta 19. aldar.

Sýningin Sjónarhorn var opnuð í apríl 2015. Á sýningunni er gestum boðið í leiðangur um sjónrænan menningararf þjóðarinnar þar sem saman eru komnar margvíslegar gersemar; forngripir, listaverk, skjöl, handrit og náttúrugripir. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúrufræða, tekur þátt í frá stofnun safnsins vorið 2007.