Náttúrufræðistofnun Íslands og samstarfsaðilar hennar hafa kortlagt og gert aðgengilega í kortasjá flokkun þurrlendis, ferskvatns og fjöru í 105 vistgerðir sem ná til 64 vistgerða á landi, 17 í ám og vötnum og 24 í fjörum. Í verkefninu, Natura Ísland, eru vistgerðirnar skilgreindar, þeim lýst og þær flokkaðar auk þess sem útbreiðsla þeirra á landinu og stærð er birt á vistgerðakorti.

33 nýjar íslenskar vistgerðir

Gulstararfitjavist við Kirkjuból í Korpudal fyrir botni Önundarfjarðar. Hávaxin gulstör er ríkjandi en með henni vaxa m.a. hrafnaklukka, skriðlíngresi og skriðstör. Ljósmynd: Sigmar Metúsalemsson.

Flokkun í vistgerðir byggir að mestu á evrópska EUNIS-flokkunarkerfinu, en þar sem náttúra Íslands er um margt ólík náttúrufari annars staðar í Evrópu þurfti að skilgreina 33 nýjar vistgerðir sem eru einstakar fyrir Ísland, þar af 10 í ferskvatni, t.d. jökulvötn, tegundarík kransþörungsvötn og súr vötn, sem eru gígvötn með hveravirkni í botni. Aðeins eru þekkt tvö súr vötn á Íslandi, Grænavatn og Víti. Sérstæðasta vistgerðin á þurrlendi er gulstararfitjavist sem finnst á sléttum flæðilöndum við sjó. Hún er mjög fágæt.

Blávatn í gíg Oksins, jökulvatn sem fannst árið 2007. Horft er í suður af norðanverðum gígbarminum efst á Okinu. Ljósmynd: Hilmar J. Malmquist.

Sandmaðksleira í Hvalfirði. Hraukar sandmaðksins sjást yfirleitt vel á yfirborði. Ljósmynd: Sigríður Kristinsdóttir.

Kortasjá með vistgerðum

Þetta er í fyrsta skipti sem heildarflokkun vistgerða byggð á samræmdri og viðurkenndri flokkun vistgerða í Evrópu fer fram á Íslandi og birtast niðurstöðurnar í sérstakri vefsjá á vef NÍ en einnig í ritinu Vistgerðir á Íslandi. Á vefnum og í ritinu er að finna lýsingu á hverri vistgerð, ljósmyndir og útbreiðslukort á staðreyndasíðum.

Nýr grunnur fyrir umhverfismat og landnýtingu

Mikil vettvangsvinna og stórir gagnagrunnar liggja að baki niðurstöðunum og ljóst að verkefnið er ekki aðeins grunnur að frekari kortlagningu á náttúru Íslands og vöktun heldur felst einnig í afurðinni mikilvægur og nýr grundvöllur að ákvarðanatöku um skipulag, mati á umhverfisáhrifum verklegra framkvæmda, svo sem orkuvinnslu og vegagerð sem og landnýtingu almennt; náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu.

Grunnur að lýsingu og kortlagningu vistgerða á Íslandi á vegum Náttúrufræðistofnunar var lagður um aldamótin með rannsóknunum á miðhálendinu og síðan hafa bæst við önnur svæði á hálendi, láglendi, ferskvatni og fjöru. Verkefnið er unnið í samstarfi við fjölda einstaklinga og stofnanir á sviði náttúrufræða en samstarfsstofnanir voru Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrustofur, Skógrækt ríkisins og Landmælingar Íslands.

Útbreiðslukort og verndargildi vistgerða

Alaskalúpína eru allútbreidd en hún er skráð í 30% landsreita. Heildarflatarmál lúpínusvæða reiknast um 300 km2, óvissa nokkur.

Kort sýna útbreiðslu vistgerðar á landsvísu. Ferningar á kortinu tákna 10×10 ferkm reiti og er samanlögð þekja vistgerðarinnar innan rammans reiknuð.

Hér til hægri má sjá útbreiðslu alaskalúpínu sem finnst á landgræðslu- og skógræktarsvæðum og beitarfriðuðu landi á láglendi í öllum landshlutum. Hún finnst í þriðjungi allra landsreita og er algengust á Suður- og Suðvesturlandi og á Norðausturlandi.

Grashólavist er mjög fágæt en hún finnst í 1% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 50 km2, óvissa nokkur, óglögg skil við líkar vistgerðir.

Hér er stigið fyrsta skref í á meta verndargildi einstakra vistgerða á landsvísu. Verndarviðmiðin eru m.a. fágæti, tegundaauðgi, gróska og kolefnisforði og er mat á verndargildi vistgerðar er flokkað í fjóra flokka: lágt, miðlungs, hátt eða mjög hátt.  Hér er aðeins um frummat að ræða en síðar á þessu ári verður lokið við að velja svæði skv. framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og ákvæðum náttúruverndarlaga um sérstaka verndun tiltekinna jarðminja og vistkerfa.

Hér að ofan má sjá útbreiðslu grashólavistar sem finnst á strandsvæðum þar sem sandhólar hafa gróið upp. Hún er algengust á sunnanverðu snæfellsnesi. Verndargildi er hátt og er vistgerðin á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Hvað er vistgerð?
„Vistgerð er landeining sem býr yfir ákveðnum eiginleikum
hvað varðar gróður, dýralíf, jarðveg og loftslag. Innan sömu
vistgerðar eru aðstæður með þeim hætti að þar þrífast
svipuð samfélög plantna og dýra“     
(Náttúrufræðistofnun Íslands).

„Svæði sem einkennist af ákveðnum samfélögum plantna og dýra
þar sem umhverfisþættir, svo sem loftslag,
jarðvegur og raki, eru svipaðir“      (European Environment Agensy).

„Staðir eða svæði með ákveðnum einkennum,t.d. hvað varðar gróður
og dýralíf, jarðveg og loftslag“     (Lög nr. 60/2013 um náttúruvernd 5.gr.).

Meira um vistgerðir
Á vef Náttúrufræðistofnunar segir um staðreyndasíðurnar: „Þær eru eru lykill fyrir leika og lærða að vistgerðunum, einkennum þeirra, útbreiðslu og verndargildi. Jafnframt eru staðreyndasíðurnar mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að greiningu vistgerða og kortlagningu á vettvangi. Vistgerðakortin veita hagnýtar upplýsingar um náttúru landsins sem nýtast stjórnvöldum, sveitarfélögum, atvinnulífi og almenningi. Þau leggja mikilvægan grunn fyrir upplýstar ákvarðanir um alla landnotkun og áætlanagerð, s.s. vegna náttúruverndar, skipulagsmála, mats á umhverfisáhrifum framkvæmda og náttúruvöktunar. Þau gera Íslandi jafnframt kleift að sinna betur alþjóðlegum skyldum sínum á sviði náttúruverndarmála.“