“Þessi niðurstaða kemur í sjálfu sér ekki á óvart og ég vona að skýrslan verði til þess að stjórnvöld taki nú af skarið og marki framtíðarstefnu fyrir safnið. Þannig gæti hún markað nýtt upphaf fyrir Náttúruminjasafn Íslands,” segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins um skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í gær. “Það er margt sem er jákvætt í starfseminni – í fyrsta sinn tekur safnið nú þátt í samsýningu sex safna þar sem m.a. geirfuglinn er til sýnis í Safnahúsinu og gerður hefur verið samstarfssamningur milli Náttúrufræðistofnunar og safnsins um útlán og eftirlit með safnmunum. Ég hef enn von um að samstarf megi takast um myndarlega náttúrufræðisýningu í Perlunni, en klukkan tifar og það má ekki dragast mikið lengur að taka ákvörðun um það. Eins er skrifstofuaðstaða safnsins í óvissu hér í Loftskeytastöðinni, húsaleigusamningnun hefur verið sagt upp og aðeins 2 mánuðir til stefnu,“ segir Hilmar.

Ríkisendurskoðun2

Eftirfylgniskýrsla Ríkisendurskoðunar um Náttúruminjasafn Íslands var birt í gær, en þrjú ár eru liðin frá því stofnunin gerði úttekt á stöðu safnsins. Þá var niðurstaðan sú að svo illa væri að safninu búið að það næði ekki að uppfylla skyldur sínar sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Í eftirfylgniskýrslunni segir að staðan hafi lítið breyst: Starfsemin hafi glæðst, en eftir sem áður sé safnið rekið af vanefnum og án formlegrar stefnu af hálfu stjórnvalda. Þá séu húsnæðismálin í mikilli óvissu; engin aðstaða til sýningarhalds og skrifstofuhúsnæði safnsins í Loftskeytastöðinni hefur verið sagt upp.

Niðurstaða eftirfylgniskýrslunnar er þessi: ”Ríkisendurskoðun hvetur til þess að safninu verði sett skýr framtíðarstefna sem bæði mennta- og menningarmálaráðuneyti og Alþingi styðji í verki. Að öðrum kosti hljóti að koma til álita að leggja safnið niður sem sérstaka stofnun og koma starfseminni fyrir með öðrum hætti.”

Þá telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að lög kveði skýrar á um hlutverk og skyldur Náttúruminjasafns og Náttúrufræðistofnunar Íslands en í skýrslunni kemur fram að “enn séu hnökrar” á samstarfi stofnananna.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

“Í fyrri skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2012 vour tíundaðir þrír megin vankantar í starfsemi höfuðsafnsins”, segir Hilmar. “Aðallega var fundið að því að hve fjárveitingar ríkisvaldsins til Náttúruminjasafnsins væru takmarkaðar, að safnið starfaði ekki samkvæmt formlegri stefnu og að miklir samskiptaerfiðleikar væru milli safnsins og Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem lögum samkvæmt á að vera vísinda- og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins.

Úr síðastnefnda atriðinu hefur verið bætt að miklu leyti og m.a. undirritaðir þrír samstarfssamningar milli stofnananna. Varðandi stefnuna var tekin sú ákvörðun haustið 2013 að bíða með að fullvinna hana þar til fyrir lægi niðurstaða um hugsanlegt sýningahald Náttúruminjasafnsins, Reykjavíkurborgar og fjárfestisins Landsbréf ITF I í Perlunni. Niðurstaða varðandi Perluna liggur ekki endanlega fyrir. Eftir stendur að aðalvandi Náttúruminjasafnsins, takmarkaðar fjárveitingar, er óleystur. Árlegar fjárheimildir safnsins undanfarin þrjú ár hafa verið aðeins um 24 m.kr. sem dugar engan veginn til að safnið geti sinnt lögbundnum hlutverkum sínum með viðunandi hætti.

Staða Náttúruminjasafnsins er vissulega ekki glæsileg en það er voanandi að eftirfylgniskýrsla Ríkisendurskoðunar verði til þess að brýna menn til dáða. Þjóðin og gestir landsins eiga ekki annað skilið en að eignast safn þar sem staðið er að sýningahaldi og miðlun upplýsinga og fróðleiks um einstaka náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Við reiðum okkur í svo miklum mæli á auðlindir náttúrunnar að fræðsla um hana er grundavallaratriði ef við ætlum að tryggja komandi kynslóðum heilnæma, gefandi og fagra framtíð.”