Pétur ásamt Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands. Vigdís ritaði formála að bókum Péturs um Þingvallavatn sem út komu 1992, 2002 og 2011. Bókin Þingvallavatn, undraheimur í mótun, hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin á árinu 2002.

Pétur M. Jónasson, 98 ára, prófessor emeritus við Kaupmannahafnarháskóla og dætur hans Margrét og Kristín hafa fært Náttúruminjasafni Íslands einkar veglega bókagjöf. Gjöfin telur um 500 titla af fræðiritum um náttúru, einkum vatnalíffræði, eftir evrópska náttúrufræðinga, frá ofanverðri 17. öld og fram á 21. öldina. Mörg verkin eru mikil fágæti og afar dýrmæt, sem fá söfn geta státað af.

Pétur afhendir Hilmari J. Malmquist elstu bókina í bókakostinum, ANATOME ANIMALIUM, Terrestrium variorum, Volatilium, Aquatilium, Serpentum, Insectorum, Ovorumque, structuram naturalem. Bókinkom út í Amsterdam árið 1681 og er eftir hollenska lækninn og líffærafræðinginn Gerard Blasius (1627–1682). Bókin er hinn mestu dýrgripur og fágæti, um 500 blaðsíður, bundin í skinn og ríkulega myndskreytt.

Bókagjöfinni var veitt viðtaka í Veröld, húsi Vigdísar, sunnudaginn 2. desember s.l. að viðstöddum Pétri og fjölskyldum dætra hans, frú Vigdísi Finnbogadóttur og Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og fleiri gestum, þ.á m. mörgum fyrrum nemendum og samstarfsmönnum Péturs. Dætur Péturs, þær Kristín Jónasson og Margrét Jónasson, lýstu gjöfinni sem fyllir þrjú vörubretti og afhentu safninu bókaskrá ásamt kvittunum fyrir bókakaupum allt frá árinu 1949, sem Pétur hafði haldið til haga.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins færði Pétri M. Jónassyni hjartanlegar þakkir fyrir veglega bókagjöf. Á myndinni má sjá til vinstri Margréti og Kristínu, dætur Péturs og Pétur sjálfan sem varð 98 ára í sumar. Fyrir miðri mynd eru þær Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands og Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ásamt gestum sem margir hafa numið við fótskör Péturs í Hafnarháskóla.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, Viðar Hreinsson sagnfræðingur og Árni Hjartarson jarðfræðingur virða fyrir sér bókina ANATOME ANIMALIUM frá árinu 1681. Í baksýn eru Ólafur Andrésson prófessor við H.Í. og Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur.

„Framlag Péturs til menningararfs þjóðarinnar felst ekki aðeins í þessari veglegu bókagjöf, heldur, eins og margir þekkja, í ómetanlegu framlagi hans til náttúrurannsókna og náttúruverndar í landinu. Hér vísa ég til brautryðjandi rannsóknaverkefna undir forystu Péturs á vistfræði Mývatns og Þingvallavatns og baráttu Péturs í kjölfarið fyrir verndun þessara náttúruperla,“sagði Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins þegar hann færði Pétri þakkir fyrir gjöfina.

Hilmar sagði þessa veglegu bókagjöf úr einkasafni Péturs styðja afskaplega vel við meginhlutverk í starfsemi Náttúruminjasafnsins, sem samkvæmt safnalögum er einmitt að tryggja bæði menningar- og náttúruarf Íslands, gera hann aðgengilegan almenningi, efla skilning á honum og stöðu hans í samfélaginu og auka með því móti lífsgæði manna.

Hann þakkaði Ingibjörgu Sverrisdóttur landsbókaverði fyrir að bregðast fljótt og vel við og skjóta skjólshúsi yfir bókakostinn og hýsa hann til bráðabirgða, eða þar til hann hefur verið skráður rafrænt og gerður aðgengilegur almenningi. „Þá geri ég mér vonir til þess að bókagjöfin verði hýst hér Loftskeytastöðinni gömlu, a.m.k. til að byrja með, eða þar til Náttúruminjasafnið hefur eignast eigið húsnæði undir starfsemi sína“ sagði Hilmar.


Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ásamt Pétri M. Jónassyni við afhendingu bókagjafarinnar.

Pétur lék á alls oddi við afhendingu bókanna – og tók m.a. upp gamla kennaratakta en á meðal gesta  voru margir fyrrum nemendur hans við Kaupmannahafnarháskóla.

Pétur Mikkel Jónasson, fæddist 18. júní 1920 í Reykjavík. Á unga aldri dvaldi hann hjá afa sínum og ömmu í Miðfelli á bökkum Þingvallavatns og þar drakk hann í sig stórbrotna náttúru Þingvallasveitar. Pétur fór utan 1939 og nam vatnalíffræði við Hafnarháskóla og lauk þaðan magistersprófi 1952 og doktorsprófi 1972. Viðfangsefni Péturs voru vistfræði straum- og stöðuvatna í Danmörku. Síðar beindi Pétur einnig sjónum að Íslandi og stóð hann fyrir umfangsmiklum rannsóknum á vistfræði Mývatns-Laxár og Þingvallavatns á árunum 1971–1982.