Skeiðönd (Spatula clypeata)


Útlit og atferli

Þessi sérkennilega önd, með sinn mikla gogg, er sjaldgæfasta öndin sem verpur reglulega hér á landi. Skeiðönd er buslönd og minni en stokkönd, hún er hálsstutt og fremur kubbsleg. Á steggnum skiptast á dökkir litir og hvítur, hann er með grængljáandi höfuð og háls, hvítur á bringu og teygir hvíti liturinn sig um axlafjaðrir aftur á undirgump. Hann hefur svart bak, gump og svart, ljósjaðrað stél, hvítar og svartar axlafjaðrir og rauðbrúnar síður og kvið. Í felubúningi er steggur svipaður kollu en dekkri að ofan með ljósari reiti á framvængjum. Bæði kyn eru með dökkgrænan spegil og ljósbláan reit á framvæng (vængþökum) og hvíta rák þar á milli. Kollan er svipuð öðrum buslandakollum, verður best greind á miklum goggi, ljósgulbrúnum eða bleikleitum fjaðrajöðrum og vængmynstri, sem er daufara en á steggi.

Goggur skeiðandar er langur, breiður og spaðalaga, dökkgrár á stegg en á kollu er hann gráleitur með rauðgulum skoltröndum. Fætur eru rauðgulir og augu gul eða brún. Skeiðöndin gefur frá sér lágvært kvak en er venjulega þögul.

Vegna hins stóra goggs virðist hún framþung á flugi. Hún er djúpsynd og veit goggurinn niður á sundi. Hún síar æti úr leðju með framrétt höfuð en hálfkafar einnig. Er fremur stygg. Fuglarnir eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.

Skeiðandarsteggur á Djúpavogi.

Skeiðandarpar snyrtir sig á Kálfstjörn í Mývatnssveit.

Skeiðandarkolla á flugi við Víkingavatn í Kelduhverfi.

Skeiðandarkolla á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Lífshættir

Skeiðönd hefur nokkuð aðra fæðuhætti en aðrar buslendur, notar stórgerðan gogginn til að sía fæðu á grunnu vatni eða úr leðju, hálfkafar einnig.  Fæðan er sviflæg krabbadýr, lítil skeldýr, skordýr og skordýralirfur, fræ og plöntuleifar.

Kjörlendi skeiðandar er lífríkt votlendi og seftjarnir, venjulega nærri ströndinni. Hreiðrið er í háum gróðri, oftast nærri vatni, gert úr grasi og stör og fóðrað með dúni. Urptin er venjulega 9-11 egg, álegan er um 22-23 dagar og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Skeiðönd er fremur nýr varpfugl hérlendis, hún var áður þekkt sem sjaldgæfur flækingur. Hún er talin hafa orpið í Borgarfirði 1911 og næstu ár, en varp sannaðist fyrst í Aðaldal 1931. Hún verpur á fáeinum lífríkum votlendissvæðum í flestum landshlutum en er algengust á Norður- og Norðausturlandi, t.d. við Mývatn og Víkingavatn. Varpstofninn er talinn vera 50-100 pör. Skeiðendur sjást oft á strandvötnum á Suðvesturlandi á fartíma. Skeiðönd er alfriðuð og á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU).

Skeiðönd er farfugl, vetrarstöðvar eru taldar vera á Bretlandseyjum. Heimkynni eru víða um norðurhvel, bæði austanhafs og vestan, næstum hringinn í kringum jörðina nema vantar í austanverðri Norður-Ameríku. Er hér á norðurmörkum útbreiðslu sinnar í Evrópu.

Engin þjóðtrú hefur skapast um svo nýjan og sjaldgæfan varpfugl og að sama skapi hafa skáld sniðgengið hana í verkum sínum.

Skeiðandarhreiður við Víkingavatn.

Skeiðandarpar á Djúpavogi.

Stálpaðir skeiðandarungar á Fýluvogi við Djúpavog.

Skeiðandarpar á Djúpavogi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson