„Vatn er himneskt. Það er ættað úr himingeimnum og þótt það sé algengasta efnið á yfirborði jarðar er vatnið í eðli sínu heilagt, sjálf kveikja og vagga lífsins. Án vatns er ekkert líf.“

—GPÓ 2012

Vatnið í náttúru Íslands

Um 500 gestir voru við opnun sýningar Náttúruminjasafnsins, VATNIÐ í náttúru Íslands í Perlunni 1. desember s.l. Börn og fullorðnir, fræðimenn, leikmenn, stjórnmálamenn og ferðamenn sökktu sér ofaní sýningaratriðin og létu vel af.

Hér að neðan má sjá nokkrar svipmyndir frá opnuninni.

Sýningin er opin frá 09:00 – 19:00.


 

VATNIÐ Í NÁTTÚRU ÍSLANDS

Sýningin veitir á nýstárlegan og heildstæðan hátt innsýn í eina mikilvægustu auðlind landsins, vatnið okkar dýrmæta, leyndardóma þess og mikilvægi fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu.

Miðlun efnis er að verulegu leyti sérsniðin fyrir börn og vatnskötturinn, sem er lirfa fjallaklukkunnar, býður þau velkomin og fylgir þeim um króka og kima sýningarinnar.

AF HVERJU VATN?

Vatn er undirstaða lífs á jörðinni. Ísland er óvenju vatnsríkt og vatn er mjög einkennandi í náttúru landsins. Sýningin VATNIÐ í náttúru Íslands fjallar um vatn frá ýmsum hliðum, um efna- og eðlisþætti, gerð og eðli vatnsauðlindarinnar, hlutverk vatns við mótun lands og uppbyggingu, fjölbreytileika vatnalífríkis, allt frá jurtum, örverum og dýrum til heilla vistkerfa, og hugað að samspili jarðfræði og líffræði, vistfræði­legum ferlum og aðsteðjandi vandamálum.

LIFANDI SÝNING OG SAFNAKENNSLA

Lifandi jurtir og vatnadýr eru í vatnsbúrum og gróðurkúlum og áhersla lögð á virka þátttöku gesta.

Eftir áramótin munu tveir safnkennarar sinna móttöku skólahópa og sjá um kennslu, einkum fyrir grunnskóla.

VATNAVÍSINDI OG RAUNTÍMAGÖGN

Stuðst er við nýstárlega miðlun á rauntímagögnum um veður- og vatnafar á landinu. Greint er frá nýjustu rannsóknum á vatnalífi landsins og m.a. fræðst um einstaka þróun vatnadýra á Íslandi sem hvergi eru til annars staðar.

Á myndrænu, gagnvirku skjáborði geta gestir kafað ofan í votlendi, kynnst fjölbreytileika ólíkra vistgerða og fræðst um ólíkar aðferðir mosa og melgresis við að ná sér í vatn.

Á Íslandi eru yfir 1200 þekktir fossar. Allmargir hafa ekki nafn, og sum nöfnin eru algengari en önnur. Það eru sjö Gullfossar á landinu en flestir eru Selfossarnir. Þeir eru 13 talsins. Á sýningunni má sjá nær 800 fossanöfn falla fram af háum stalli.

Sýningin er hluti af náttúrusýningu Perlu norðursins hf. í Perlunni.