Rannsóknir og ráðgjöf

Náttúruminjasafn Íslands skal lögum samkvæmt sinna rannsóknum á starfssviði sínu sem hverfist um miðlun fróðleiks og upplýsinga um náttúru landsins, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd. Miðluninni skal meðal annars sinnt með sýningahaldi, prentaðri og rafrænni útgáfu, fyrirlestrum og erindum.

Náttúruminjasafnið safnar munum sem henta starfsemi þess, rannsakar þá, skráir og varðveitir.

Í lögum Náttúruminjasafnsins er rík áhersla lögð á samstarf við aðrar rannsóknastofnanir. Í samræmi við þetta leitast Náttúruminjasafnið við að byggja rannsóknir á samstarfi við aðra. Dæmi um slíkt eru rannsóknir í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum.

Í 3.gr. Náttúruminjasafnslaga er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli vera …„vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins.“ og að stofnanirnar skuli …„hafa með sér náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra.“ Samkomulag milli stofnananna um hið síðastnefnda var undirritað haustið 2012: Samkomulag um samstarf NMSÍ og NI. 22.10.2012.

Í 3.gr. Náttúruminjasafnslaga segir ennfremur að …„Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands er ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess.

Rannsóknir á vegum Náttúruminjasafnsins byggjast að svo komnu að miklu leyti á samstarfsverkefnum við aðra aðila sem fást við rannsóknir á sviði Náttúruminjasafnsins. Gerðir hafa verið samningar um slík verkefni við stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, þ. á m. Líffræðistofu Háskóla Íslands, Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, Háskólann á Hólum og rannsókna- og ráðgjafafyrirtækið RORUM ehf.

Eftirfarandi samstarfsverkefnum hefur verið komið á milli Náttúruminjasafnsins og annarra rannsóknaaðila:

LÍFFRÆÐILEGUR FJÖLBREYTILEIKI Á ÍSLANDI – samstarf við Háskólann á Hólum

Rannsókn sem felur í sér samantekt og greiningu á fyrirliggjandi gögnum sem lúta að líffræðilegum fjölbreytileika meðal helstu lífveruhópa í landinu með áherslu á hryggdýr, einkum fiska, fugla og spendýr. Um er að ræða samstarfsverkefni við Háskólann á Hólum og er prófessor Skúli Skúlason verkefnisstjóri. Fræðimenn Hólsaskóla hafa aðstöðu hjá Náttúruminjasafninu. Verkefnið hófst í janúar 2014 og áætluð verklok eru um áramótin 2017-2018.

Rammasamkomulag við Hólaskóla. 05.09.2014.

Verkefnasamkomulag við Háskólann á Hólum. 04.12.2014.

FORNLÍFFRÆÐI ROSTUNGA VIÐ ÍSLAND – samstarf við Líffræðistofu H.Í.

Meginmarkmið rannsóknarinnar, sem felur m.a. í sér aldursgreiningu beina, svipfarsgreiningu þeirra og erfðagreiningu, er að varpa ljósi á fornlíffræði rostunganna hér við land, útskýra aldur þeirra, jarðsögulega stöðu, líffræði og hugsanleg tengsl við rostungsstofna annars staðar í norðanverðu Atlantshafi. Gagnasafnið sem liggur til grundvallar rannsókninni nær til beinaleifa um 50 rostunga sem fundist hafa hér við land á undaförnum 100 árum eða svo.

Að verkefninu koma meðal annars sérfræðingar á Líffræðistofu Háskóla Íslands, dr. Arnar Pálsson dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild og prófessor Snæbjörn Pálsson við sömu deild, ásamt dr. Bjarna Einarssyni fornleifafræðingi.

Samstarfssamkomulag við Líffræðistofu H.Í. um rannsóknir á rostungum. 23.01.2015.

RANNSÓKNIR Á SVIÐI SAFNAFRÆÐA – samstarf við Félagsvísindasvið H.Í.

Um er að ræða almennt rammasamkomulag um rannsóknasamstarf á sviði safntengdrar náttúrufræði. Gerðir verða sérsamningar um afmörkuð verkefni. Eitt meistaraverkefni er hafið og felst í könnun á samræmdu skráningakerfi fyrir náttúrumuni á landsvísu. Umsjónarmaður er prófessor Sigurjón Baldur Hafsteinsson.

Samstarfssamkomulag við Félagsvísindasvið H.Í. 08.06.2015.

RANNSÓKNIR Á SVIÐI NÁTTÚRU- OG SAFNFRÆÐA – samstarf við Rorum ehf.

Um er að ræða almennt rammasamkomulag um rannsóknasamstarf á sviði náttúru- og safnfræða. Rorum (Rannsóknir og ráðgjöf í umhverfismálum) er einkahlutafélag sem sinnir rannsóknum og ráðgjöf á sviði náttúrufræða og umhverfismála. Fyrirtækið hefur aðstöðu hjá Náttúruminjasafninu. Gerðir verða sérsamningar um afmörkuð verkefni. Einu sérverkefni er lokið sem fólst í rannsókn á fjölbreytni náttúru og menningarminja og áhrif virkjana á náttúru og menningarminjar (sbr. tvær þar að lútandi skýrslur).

Rammasamkomulag við Rorum ehf. 15.01.2015.