Umhverfis- og loftslagsstefna Náttúruminjasafns Íslands

Framtíðarsýn

Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands er skilgreint í lögum um Náttúruminjasafn Íslands nr. 35/2007 og safnalögum nr. 141/2011. Náttúruminjasafnið er fræðslu- og vísindastofnun sem er ætlað að gegna miðlægu hlutverki við miðlun þekkingar og upplýsinga um náttúrufræðileg efni og veita öðrum söfnum landsins sem sýsla með málefni náttúrunnar stuðning.

Það er stefna Náttúruminjasafns Íslands að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum. Þetta gerir safnið annars vegar með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfsemi safnsins og hins vegar með því að miðla fróðleik um loftslagsmál byggðum á vísindum til almennings. Náttúruminjasafn Íslands vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins verði náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Yfirmarkmið

Náttúruminjasafn Íslands mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun GHL í rekstri og kolefnisjafna starfsemina með því að kaupa vottaðar kolefnisjöfnunareiningar sem samsvarar meira en losun sem fylgir starfseminni. Fyrir liggur að starfsemi safnsins mun aukast þar sem nýjar höfuðstöðvar verða opnaðar á Seltjarnarnesi árið 2023. Náttúruminjasafnið stefnir að því, eins og kostur er, að aukning sem fylgir nýja aðsetrinu bæti ekki við losun á GHL. Frá 2021 og fram til ársins 2030 stefnir  Náttúruminjasafnið að því að draga úr losun GHL sem nemur 3% og verða kolefnishlutlaust árið 2024 en kolefnishlutleysi telst vera náð þegar losun kolefnis er ekki meiri en sem nemur bindingu þess. Losunarmarkmið verða uppfærð árlega á meðan loftslagsstefna er í gildi en viðmiðunarárið (2020) var nokkuð lágt fyrir heildarlosun stofnunarinnar sem útskýrir þetta lága prósentuhlutfall.

Gildissvið

Stefna þessi tekur til umhverfisáhrifa af innri rekstri Náttúruminjasafns Íslands og varðar alla starfsmenn þess. Ennfremur tekur stefnan mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamningnum og Yfirlýsingu forstöðumanna stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá 25. maí 2018 um samdrátt í losun GHL og kolefnishlutleysi.

Umfang

Stefnan nær til allrar starfsemi Náttúruminjasafns Íslands, daglegs reksturs, bygginga, safnkosts, framkvæmda og umhverfisfræðslu. Stefnan byggir á eftirfarandi mælanlegum þáttum: samgöngum, orkunotkun, innkaupum, ræstiþjónustu og sorpmyndun. 

Eftirfylgni

Loftslagsstefna Náttúruminjasafnsins er rýnd á hverju ári af stýrihópi umhverfismála og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun GHL á milli ára. Stefnan er samþykkt af forstöðumanni og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu Náttúruminjasafns Íslands www.nmsi.is.

Forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands
Dr. Hilmar J. Malmquist
13. desember 2021