Opið er fyrir bókanir skólahópa

fyrir veturinn 2022-2023

 

 

Markmið safnfræðslu Náttúruminjasafns Íslands er að styðja við náttúrufræðikennslu á öllum skólastigum á skapandi og hvetjandi hátt og kynna fyrir nemendum spennandi heim náttúruvísindanna. Jafnframt er lögð áhersla á að vekja nemendur til umhugsunar um umhverfi sitt og órjúfanleg tengsl mannsins og náttúrunnar.

Tekið er á móti skólahópum á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands á 2. hæð Perlunnar alla virka daga. Sýningin er nútímaleg og fjölbreytt og býður upp á margvísleg viðfangsefni í náttúrufræðum. Fræðsla er ókeypis fyrir skólahópa.

Bókið heimsóknir hér

BÓKANIR

Fræðsluleiðir

Leikskólar

Upplifunarferð um sýninguna
Leikskólabörnum er boðið í spennandi upplifunarferð um sýninguna Vatnið í náttúru Íslands. Þar fá þau að kynnast mismunandi birtingarmyndum vatns, meðal annars með því að hlusta, snerta, sulla og skoða lífverur sem búa í vatninu.

Grunnskólar

Líf í fersku vatni 1. – 7. bekkur
Í ferskvatni býr urmull skemmtilegra lífvera sem áhugavert er að fræðast um. Sumar eiga heima á botni stöðuvatna og straumvatna og aðrar eru svo litlar að við sjáum þær ekki með berum augum. Við fjöllum um lífsferla þeirra og atferli.

Spennandi steinar 1. – 7. bekkur
Af hverju eru sumir steinar glitrandi, sumir rauðir og aðrir grænir? Við skoðum fjölbreytta steina og fjöllum um hvernig sumir steinar vaxa úr vatni.

Veður og loftslag 1. – 10. bekkur
Hver er munurinn á veðri og loftslagi og hvernig tengjast loftslagsbreytingar veðrinu? Gott er að nemendur séu búnir að kynna sér veðurspána fyrir heimsóknina.

Líffræðileg fjölbreytni 5. – 10. bekkur
Hvernig tengjast lífverur umhverfi sínu og öðrum lífverum? Hvað merkir líffræðileg fjölbreytni og skiptir hún okkur máli? Hver er sérstaða Íslands varðandi líffræðilega fjölbreytni?

Vatnið 5.-10. bekkur
Vatn er óvenju áberandi hluti af náttúru Íslands. Við fjöllum um hvernig við nýtum ferskvatnið, heitt og kalt og ræðum um umsvif mannsins og áhrifin sem þessi nýting hefur á náttúruna.

Framhaldsskólar
Kennarar geta haft samband við safnkennara kennsla@nmsi.is og fengið leiðsögn á sýningunni Vatnið í náttúru Íslands fyrir nemendahópa en efni sýningarinnar má nýta til kennslu í til dæmis líffræði, jarðfræði, landafræði, umhverfisfræði, þróunarfræði, heimspeki og skapandi greinum.

Háskólar
Háskólanemar eru hvattir til að hafa samband við sérfræðinga safnsins sem geta veitt fjölbreyttar upplýsingar á sviðum náttúrunnar.

Frístundahópar
Frístundahópar eru boðnir velkomnir á sýninguna en mikilvægt er að allir hópar bóki heimsóknir fyrirfram í gegnum netfangið kennsla@nmsi.is.

Náttúruskoðun með Náttúruminjasafninu
Í vetur býður safnið upp á náttúruskoðun í Öskjuhlíðinni og fjöruferðir í fjörunum í kringum höfuðborgarsvæðið. Bókanir fara fram á netfanginu kennsla@nmsi.is og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu safnsins og hjá safnkennurum í síma 5771800.