Líf í fersku vatni og líffræðileg fjölbreytni

Í ferskvatni býr urmull skemmtilegra lífvera sem áhugavert er að fræðast um. Sumar eiga heima á botni stöðuvatna og straumvatna og aðrar eru svo litlar að við sjáum þær ekki með berum augum. Við fjöllum um lífsferla þeirra og atferli og hvernig þær tengjast umhverfi sínu og öðrum lífverum. Nemendur á mið- og unglingastigi fá fræðslu um líffræðilega fjölbreytni og sérstöðu náttúru Íslands.

Markmið heimsóknarinnar er að nemendur afli sér upplýsinga um ferskvatnið í náttúru Íslands og öðlist skilning á samspili lífvera í fersku vatni.

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti skólahópum við inngang Perlunnar og þeim fylgt upp á 2. hæð þar sem sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands er. Þar er fatahengi og hægt að hengja upp útifatnað. Hópurinn kemur svo saman fyrir framan vatnsköttinn í anddyri sýningarinnar eða við annað atriði (eldri nemendur fá fræðslu hjá öðru sýningaratriði). Safnkennarar bjóða hópinn velkominn, fara yfir fyrirkomulag heimsóknarinnar og tala við nemendur um vatnið með áherslu á lífríkið sem því tengist.

Því næst er verkefnablöðum og skriffærum útdeilt. Nemendur leysa verkefni samhliða því að skoða sýninguna og safnkennarar eiga í virku samtali við nemendur meðan þau skoða sýninguna. Þegar þau eru búin að leysa verkefnin er stoppað við eitt sýningaratriði og inntak þess rætt auk þess sem farið er yfir verkefnin. Heimsóknin tekur um 50 mínútur.

Með tilliti til stærðar sýningarinnar er æskilegt að ekki séu fleiri en 25 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best.

Mikilvægt er að nemendur séu búin að borða nesti áður en þau koma í Perluna eða borði það þegar heim í skólann er komið þar sem það er ekki nestisaðstaða í Perlunni.

Bókanir skólahópa í fræðslu hjá Náttúruminjasafninu fara fram á bókunarsíðu safnsins

Undirbúningur og eftirfylgni fræðsluleiðarinnar

Fróðleiksbrunnurinn er ný fræðslusíða Náttúruminjasafns Íslands í náttúrufræðum. Efnið hentar til undirbúnings og eftirfylgni heimsóknar á sýninguna Vatnið í náttúru Íslands en er einnig kjörið til notkunar í skólum. Hér fyrir neðan eru hlekkir á fræðsluefni sem getur hentað til undirbúnings og eftirfylgni fyrir fræðsluleiðina.

Náttúrufræðsla – Líf í fersku vatni

Náttúrufræðsla – Líffræðileg fjölbreytni

Náttúrufræðsla – Vatnið

Náttúruteikningar  

Náttúruþrautir

Tenging við Aðalnámsskrá

Heimsóknin nýtist sem stuðningur við kennslu í náttúrufræði og tengist bæði hæfniviðmiðum um verklag og viðfangsefni. Fræðsluleiðin hentar sérstaklega vel hæfniviðmiðum um náttúru Íslands þar sem áhersla er lögð á lífverur og aðlögun þeirra, lífsferla og samspil lífvera við lífvana þætti náttúrunnar. Nemendur fá auk þess innsýn í fjölbreytni nýtingu vatns, landnotkun og forsendur náttúruverndar. Þau vinna verkefni sem þjálfa þau í að taka eftir, lesa og afla sér upplýsinga um náttúruna.

Tenging við námsefni.

Óháð námsstigi

Vala Steingrímsdóttir og Unnar Ingi Sæmundarson, 2023. Fræðslumyndasögur um líffræðilega fjölbreytni. Náttúrufræðistofnun Íslands.

Yngstastig

Jónella Sigurjónsdóttir og Unnur María Sólmundsdóttir. 2020. Halló heimur 1. Menntamálastofnun.

Jónella Sigurjónsdóttir og Unnur María Sólmundsdóttir. 2022. Halló heimur 2. Menntamálastofnun.

Sigrún Helgadóttir. 2003. Komdu og skoðaðu hringrásir. Námsgagnastofnun.

Miðstig

Halldóra Lind Guðlaugsdóttir, Ragnheiður Alma Snæbjörnsdóttir og Thelma Ýr Birgisdóttir. 2021. Náttúrulega. Menntamálastofnun. 1. kafli Uppruni lífs og flokkun lífvera.

Halldóra Lind Guðlaugsdóttir, Ragnheiður Alma Snæbjörnsdóttir og Thelma Ýr Birgisdóttir. 2022. Náttúrulega 2. Menntamálastofnun. 5. kafli. Sjór, vatn og frumefni.

Greiningarlykill um smádýr sem tengjast fersku vatni á vef Menntamálastofnunar.

Sólrún Harðardóttir, 2010. Hornsíli. Námsgagnastofnun.

Sólrún Harðardóttir. 2012. Líf á Landi. Námsgagnastofnun.

Rannveig Magnúsdóttir. 2023. Náttúran okkar. Menntamálastofnun.

Unglingastig

Brynhildur Bjarnadóttir o.fl. 2023. Sjálfbærni. Menntamálastofnun. 6. kafli, Sjálfbærni í náttúrunni.

Susanne Fabricus o.fl. 2018. Litróf Náttúrunnar. Námsgagnastofnun.