Steinagreining

Sumir steinar eru glitrandi, aðrir rauðir eða grænir. Við skoðum fjölbreytta steina og fjöllum um hvernig steinar verða til í eldgosum og aðrir vaxa úr vatni. Nemendum gefst tækifæri á að spreyta sig á aðferðum sem notaðir eru til að greina steina og við veltum fyrir okkur samspili eldgosa, jökla og fjalla.

Markmið heimsóknarinnar er að nemendur læri muninn á frumsteindum og síðsteindum (steinar sem myndast í eldgosum og steinar sem vaxa eftir á), kynnist aðferðum sem notaðar eru við að greina steina og fræðist um jarðbreytileika Íslands og mikilvægi náttúruverndar.

Geldingadalir gas

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti skólahópum við inngang Perlunnar og þeim fylgt upp á 2. hæð þar sem sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands er. Þar er fatahengi og hægt að hengja upp útifatnað. Hópurinn kemur svo saman fyrir framan steinahringinn á sýningunni. Safnkennarar bjóða hópinn velkominn, fara yfir fyrirkomulag heimsóknarinnar og tala við nemendur um steina og jarðfræði með áherslu á muninn á frum- og síðsteindum.

Því næst fá nemendur að skoða mismunandi steina og spreyta sig á aðferðum sem notaðar eru til að greina þá. Að því loknu gefst tími til að skoða önnur atriði sýningarinnar. Í lok heimsóknar er stoppað við nýja sýningu á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs, Hvað býr í þjóðgarði? og fjallað um samspil elds og íss. Heimsóknin tekur um 50 mínútur.

Með tilliti til stærðar sýningarinnar er æskilegt að ekki séu fleiri en 25 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best.

Bókanir skólahópa í fræðslu hjá Náttúruminjasafninu fara fram á bókunarsíðu safnsins

Undirbúningur og eftirfylgni fræðsluleiðarinnar

Fróðleiksbrunnurinn er ný fræðslusíða Náttúruminjasafns Íslands í náttúrufræðum. Efnið hentar til undirbúnings og eftirfylgni heimsóknar á sýninguna Vatnið í náttúru Íslands en er einnig kjörið til notkunar í skólum. Hér fyrir neðan eru hlekkir á fræðsluefni sem getur hentað til undirbúnings og eftirfylgni fyrir fræðsluleiðina.

Náttúrufræðsla – Líf í fersku vatni

Náttúrufræðsla – Líffræðileg fjölbreytni

Náttúrufræðsla – Vatnið

Náttúruleit

Náttúruteikningar  

Náttúrutilraunir

Náttúruþrautir

Tenging við Aðalnámsskrá

Heimsóknin nýtist sem stuðningur við kennslu í náttúrufræði og tengist bæði hæfniviðmiðum um verklag og viðfangsefni. Fræðsluleiðin hentar sérstaklega vel hæfniviðmiðum um að búa á jörðinni þar sem áhersla er lögð á steina og hvernig þeir myndast í tengslum við myndun og uppbyggingu Íslands og hvernig landslag og jarðvegur breytist. Nemendur fá auk þess innsýn í vísindaleg vinnubrögð, ræða atriði í umhverfi sínu, samspil manns og náttúru og forsendur náttúruverndar.

Tenging við námsefni

Yngstastig

Ragnheiður Gestsdóttir. 2015. Komdu og skoðaðu eldgos. Námsgagnastofnun.

Sigrún Helgadóttir. 2002. Komdu og skoðaðu umhverfið. Námsgagnastofnun.

Sigrún Helgadóttir. 2004. Komdu og skoðaðu fjöllin. Námsgagnastofnun.

Miðstig

Jarðfræðivefur Menntamálastofnunar

Unglingastig

Jarðfræðivefur Menntamálastofnunar