Náttúrufræðingurinn mættur!   

Út er komið 3.–4. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá brislingi sem er nýfundinn nytjafiskur við Ísland, mítlum sem húkka sér far með drottningarhumlum og sauðfé sem étur kríuegg og -unga. Forsíðuna prýðir hvít tófa í fjöru, en í heftinu er fyrsta grein af þremur um íslenska melrakkann og fjallar um stofnbreytingar, veiðar og verndun refastofnsins. Loks er gerð grein fyrir lifnaðarháttum og útbreiðslu skötuorms á Íslandi, stærsta íslenska hryggleysingjans sem þrífst í vötnum á hálendinu.

Heftið er 84 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Refastofninn réttir úr kútnum

Sagt er að uppáhaldsbörn eigi sér mörg nöfn. Sama á við um refinn sem kallast m.a. tófa, melrakki, lágfóta og skolli. Melrakki er elsta heitið, komið úr norsku, en melrakkinn var eina landspendýrið sem fyrir var þegar landnámsmenn komu til Íslands. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur, hefur ritað þrjár yfirlitsgreinar fyrir Náttúrufræðinginn um íslenska refinn. Í þeirri fyrstu fjallar hún um rannsóknir á íslenska refastofninum, stofnbreytingar, veiðar og verndun. Refir voru réttdræpir og feldur þeirra var verðmætur gjaldmiðill strax á þjóðveldisöld. Þeir voru loks friðaðir með lögum 1994 en veiðar þó áfram stundaðar í skjóli undanþáguákvæða. Á árinu 2015 var talið að stofninn væri stöðugur og teldi um 7 þúsund dýr. Nýjasta stofnmatið sýnir að stofninn hefur rétt úr kútnum og að haustið 2018 hafi hann talið um 8.700 dýr. Tvö litaafbrigði eru af íslenska refnum, hvítt og mórautt. Stór hluti stofnsins lifir á strandsvæðum og eru flestir mórauðir. Umtalsverður hluti stofnsins lifir hins vegar inn til landsins og þar er litarfar nokkuð jafnskipt milli hvítra og mórauðra refa. Ljósmyndina á forsíðu tók Einar Guðmann.

 

Laumufarþegar á humlum

Á vorin og haustin eru humludrottningar (Bombus-tegundir) oft þaktar gulleitum doppum sem í reynd eru lifandi mítlar (Acari). Guðný Rut Pálsdóttir og Karl Skírnisson sníkjudýra-fræðingar hafa rannsakað mítlana, kannað lífsferil þeirra og möguleg áhrif á humlur og bú. Skoðaðar voru 53 drottningar af þremur algengum humlutegundum. Allar báru þær mítla, allt uppí fjórar tegundir hver, en mítlarnir voru af fimm tegundum, og voru þrjár áður óþekktar hér á landi. Mítlarnir festa sig á drottningarnar og taka sér þannig far milli búa. Ein tegundin stundar hreinan nytjastuld í búunum þar sem hún lifir á frjókornum og blómasafa. Hinar tegundirnar fjórar þakka fyrir verðmætt fóður í búunum með því að þrífa, éta myglu og drepa og éta smádýr sem sækja í búið.

Hér má sjá með berum augum ásætumítillinn Parasitellus fucorum á móhumludrottningu (Bombus jonellus). Ljósm. Páll B. Pálsson.

Brislingur (Sprattus sprattus) 15 cm langur og brislingskvarnir. Ljósm: Svanhildur Egilsdóttir og Guðrún Finnbogadóttir.

Brislingur veiðist við Ísland

Með auknu innflæði hlýs sjávar á Íslandsmið frá 1996 hafa nýjar tegundir veiðst við Ísland. Ein þeirra er brislingur (Sprattus sprattus) sem veiddist í fyrsta sinn á Íslandsmiðum 2017 svo vitað sé. Á næstu árum fjölgaði brislingum og í tveimur leiðöngrum 2021 fengust nær 700 brislingar, flestir fyrir Suður- og Vesturlandi, en einnig í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Brislingur er smávaxinn uppsjávarfiskur af síldaætt, honum svipar til síldar en er þó hærri um sig miðjan, 11,5–15 cm. Brislingur er mjög algengur við strendur meginlands Evrópu allt suður til Afríku. Hann þykir góður matfiskur, ársaflinn í Eystrasalti og Norðursjó hefur verið 600–700 þúsund tonn og eru Danir stórtækastir.

Staðfest er að brislingur hrygndi við Ísland sumarið 2021 og það kann að auka líkurnar á því að þessi smávaxna fisktegund sé komin til að vera. Jónbjörn Pálsson, fimm starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og einn starfsmaður Háskólaseturs Vestfjarða eru höfundar greinarinnar um þennan nýjasta nytjafisk við Íslandsstrendur.

Kind með tvö lömb á kafi í kríuvarpinu í Flatey. Ljósm. Kane Brides.

Kindur sem éta egg og unga!

Kindur eru grasbítar – eða hvað? Sumarið 2019 sást til kinda í Flatey á Breiðafirði sem ýttu kríu (Sterna paradisaea) af hreiðri sínu og átu síðan egg hennar. Sama sumar fundust bæði lifandi og dauðir kríuungar með hluta vængjar eða allan vænginn afstýfðan, svo og dauðir hauslausir ungar. Þetta endurtók sig sumrin 2020 og 2021 og voru ummerkin eins og vængur eða haus hefðu verið rifnir frá búknum. Engar líkur eru á að fuglarnir hafi misst væng eða haus við það að fljúga á rafmagnsvíra eða girðingar enda ungarnir enn ófleygir. Þetta er ekki einsdæmi – a.m.k. fjögur tilvik önnur eru tilgreind um unga- og eggjaát sauðkinda annars staðar á landinu: frá Bárðardal og Suðurlandi, þar sem um var að ræða lóu- og spóaunga, og frá Flatey á Skjálfanda og Mjóafirði þar sem um kríuunga var að ræða.

Höfundar greinarinnar eru Ævar Petersen, Sverrir Thorstensen, Scott Petrek og Kane Brides og segja þeir óljóst hversu víðtæk þessi hegðun er eða af hverju sauðfé gerist kjötætur. Sú skýring hefur verið nefnd að kindurnar vanti steinefni, en það er ekki staðfest.

Lifandi steingervingar

Skötuormur (Lepidurus arcticus) er langstærsti hryggleysingi í ferskvatni á Íslandi, í útliti er hann eins og aftan úr fornöld og má kallast einkennisdýr í vötnum og tjörnum á hálendinu. Þóra Hrafnsdóttir og Þorgerður Þorleifsdóttir, líffræðingar, gerðu sér ferð í ferð í Veiðivötn á Landmannaafrétti sumarið 2019 ásamt hollenska listamanninum og ljósmyndaranum Wim van Egmond. Ferðin var farin á vegum Náttúruminjasafns Íslands í því skyni að taka ljósmyndir og kvikmyndir til fræðslu um þetta vatnadýr sem fáir hafa augum litið. Grein þeirra er e.k. ferðasaga og þar má finna lýsingar á útliti og lífsferli skötuormsins og frábærar ljósmyndir af þessu huldudýri.

Skötuormur (Lepidurus arcticus) á botni Skálanefstjarnar í Veiðivötnum. Ljósm. Wim van Egmond.

Skötuormar eru rándýr og éta allt sem að kjafti kemur, bæði lifandi og dautt, svo sem þörunga, vatnaflær og rykmýslirfur. Þeir eru jafnframt eftirsótt fæða silungs og vatnafugla. Myndin hér að ofan sýnir lóuþræl (Calidris alpina) tína upp í sig skötuorm í Gæsavötnum síðsumars 2017. Ljósm. Þórður Halldórsson.

Huldudýr á heiðum uppi

Þó fáir hafi heyrt um skötuorminn og enn færri séð þetta sérkennilega krabbadýr hefur skötuormur verið þekktur í landinu um aldir. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) nefnir hann trúlega fyrstur í riti sínu um Íslands aðskiljanlegar náttúrur (1640–1644) og kallar hann „vatnslúður“. Útbreiðslan hefur hins vegar verið á huldu þar til nú að Þorleifur Eiríksson, Þorgerður Þorleifsdóttir, Hrefna Sigurjónsdóttir og Hilmar J. Malmquist líffræðingar hafa tekið saman tiltæk gögn um hana frá tímabilinu 1780–2020. Alls voru skráðir 237 fundarstaðir skötuorma og staðfestir rannsóknin að skötuormur er fyrst og fremst hálendisdýr á Íslandi (yfir 90% í 200 m h.y.s., eða meira), og algengastur í tjörnum og grunnum vötnum í um 400 m hæð yfir sjávarmáli eða meira. Dýrið hefur fundist í öllum landshlutum, mest á norðan- og sunnanverðu miðhálendinu en síst á Vesturlandi.

Auk framangreinds er í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins leiðari sem Droplaug Ólafsdóttir, formaður ritstjórnar Náttúrufræðingsins og starfsmaður vinnuhóps Norðurskautsráðsins um lífríkisvernd (CAFF) ritar um Að ná settu marki, eftirmæli um Svanhildi Jónsdóttur Svane, fléttufræðing sem lést 1916, og ritdómur um stórvirki Kristjáns Leóssonar og Leós Kristjánssonar, Silfurberg – Íslenski kristallinn sem breytti heiminum, sem út kom að Leó látnum á árinu 2020.

Verkamenn í silfurbergsnámunni við Helgustaði, vopnaðir haka, skóflu og fötu. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.