Nýtt samkomulag um samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands
Miðvikudaginn 22. október undirrituðu Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands samkomulag um áframhaldandi samstarf stofnananna tveggja á sviði rannsókna og miðlunar. Samkomulagið byggir á eldri samningi sem stofnanirnar gerðu með sér árið 2012 með fáeinum breytingum. Í lögum um Náttúruminjasafn Íslands nr. 35/2007 kemur fram að þessar náskyldu stofnanir skuli hafa með sér náið samstarfs sem grundvallist á sérstöku samkomulagi milli þeirra.
Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða sem sinnir rannsóknum á fræðasviði sínu og er miðstöð miðlunar á upplýsingum og þekkingu um náttúru Íslands, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Náttúrufræðistofnun Íslands, sem fram að stofnun Náttúruminjasafnsins árið 2007 gegndi að hluta til svipuðu miðlunarhlutverki og Náttúruminjasafnið sinnir í dag, starfar á sviði náttúruvísinda og náttúruverndar og hefur það að meginhlutverki að hafa heildaryfirsýn yfir náttúru landsins með því að stunda vöktun og grunnrannsóknir. Stofnunin varðveitir jafnframt niðurstöður, eintök og muni í fræðilegum söfnum er veita sem best yfirlit um náttúru landsins.
Nýja samkomulagið felur í sér náið samstarf stofnananna um málefni sem varða m.a. líffræðilega fjölbreytni, jarðfræði, flokkunarfræði og miðlun. Stofnanirnar munu einnig vinna náið og á gagnkvæman hátt með gagnasöfn sín og safnkost, jafnt vegna sýninga og annarrar starfsemi. Auk þessa er að finna ákvæði um samnýtingu á aðstöðu hjá Náttúrufræðistofnun til varðveislu og rannsókna á náttúrugripum og munum sem aflað er vegna miðlunar og rannsókna á vegum Náttúruminjasafnsins. Jafnframt að finna ákvæði um samstarf stofnananna um gerð fræðsluefnis fyrir almenning og aðstoð Náttúrufræðistofnunar við öflun náttúrugripa sem lögum samkvæmt ekki verða fengnir með öðrum hætti. Þá mun Náttúruminjasafnið taka yfir umsjón með útlánum á munum úr safnkosti Náttúrufræðistofnunar sem ætlaðir eru til sýningar hjá þriðja aðila.
Til að tryggja samstarf stofnananna og fylgja eftir nýja samkomulaginu verður settur á fót fjögurra manna samráðshópur, skipaður tveimur fulltrúum frá hvorri stofnun. Endurskoða skal samkomulagið á minnst þriggja ári fresti.
„Þetta er einkar gott samkomulag milli systurstofnananna og mjög ánægjuleg stund.“ sagði Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins við undirskriftina og bætti við … „Samkomulagið felur í sér margvísleg samlegðaráhrif og hagræðingu í starfsemi beggja stofnananna, sem er vel og styrkir málstaðinn sem báðar stofnanirnar standa fyrir – aukin þekking í náttúrufræðum og betri skilningur á mikilvægi sjálfbærni í allri umgengni við náttúruna.“