Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2023
Sunnudaginn 21. maí var Dagur barnsins og hann var sannarlegur gleðidagur fyrir Náttúruminjasafnið og Vatnajökulsþjóðgarð þegar 5. úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fór fram.
Stofnanirnar fengu úthlutað 5 milljón króna styrk fyrir samstarfsverkefni sem ber heitið – Eldur, ís og mjúkur mosi og verður unnið í samstarfi við listafólk og skóla í nágreni þjóðgarðsins. Fjölbreyttar smiðjur munu fara fram í skólum í nágrenni þjóðgarðsins í haust sem verða uppspretta sýninga og ýmissa viðburða í gestastofum hans. Einnig verður sett upp samsýning í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar auk þess sem þátttakendur verkefnisins skipuleggja málþing til að velta upp spurningum eins ,,Hvað er náttúruvernd og hvernig getum við komið betur fram við náttúruna?‘‘.
Við hlökkum til samstarfsins og erum spennt að hefjast handa!
Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Sjóðurinn styrkir að þessu sinni 41 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs tilkynnti um úthlutanir sjóðsins í ár. Á myndinni á má sjá auk þeirra, styrkþega Barnamenningarsjóðs Íslands í ár.