Náttúruminjasafnið tekur þátt í þróunarverkefni sem er styrkt af Sprotasjóði næsta vetur

Styrkþegar Sprotasjóðs 2024

Grandaskóli, Menntaskólinn við Sund og Náttúruminjasafn Íslands hljóta styrk frá Sprotasjóði í ár til að vinna saman verkefnið Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi.

Í verkefninu verður á skapandi hátt unnið með félagakennslu til þess að tengja á milli skólastiga og efla náttúrulæsi með áherslu á lífríki hafsins og fjörunnar.

Fimmtudaginn 30. maí síðastliðinn fór fram úthlutun úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Bragi Þór Svavarsson, formaður stjórnar sjóðsins, afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Sjóðurinn styrkir í ár rúmlega 30 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.

Teymið á bakvið verkefnið Finndu mig í fjöru – Skapandi náttúrulæsi: Judith Amalía Jóhannsdóttir, kennari í Grandaskóla, Ragnhildur Guðmundsdóttir settur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, Katrín Magnúsdóttir kennari í Menntaskólanum við Sund og Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands ásamt Braga Þór Svavarssyni formanns stjórnar Sprotasjóðs og Ásmundi Einari Daðasyni Mennta- og barnamálaráðherra.