Skemmtileg fjöruferð í Gróttu!

Starfsfólk Náttúruminjasafnsins aðstoðaði gesti við að greina lífverur í fjörunni. 

Laugardaginn 12. apríl buðu Náttúruminjasafn Íslands og Náttúruverndarstofnun uppá fjöruferð í friðlandinu við Gróttu. Fjöruferðin var hluti af dagskrá Barnamenningarhátíðar og starfsfólk stofnananna tók vel á móti gestum ásamt Jóhanni Óla, fuglaljósmyndara. Í fjörunni fengu þátttakendur tækifæri til að skoða fjölbreytt lífríki fjörunnar og spreyta sig á að greina lífverur, eins og lindýr, krabbadýr, þang og þara, auk þess að fræðast um mikilvægi náttúruverndar.

Rétt er að minna á að frá og með 1. maí er fjaran við Gróttu lokuð almenningi vegna fuglaverndar yfir varptímann. Gestir eru því hvattir til að sýna svæðinu tillitssemi og virða lokanir í þágu fuglalífsins.

Jóhann Óli Hilmarsson fuglaljósmyndari og Ásta Davíðsdóttir landvörður hjá Náttúruverndarstofnun hjá fuglastöðinni, þar var hægt að fylgjast með og skoða fugla.

Beltisþari getur orðið mjög stór.

Fjaran við Gróttu er frábær til að kynnast lífríki fjörunnar.