Nordic Biodiversity Framework
Greinargerð í kjölfar vinnustofu Biodice um líffræðilega fjölbreytni var gefin út í maí 2025 en þessi vinnustofa, sem haldin var á Íslandi, var sú fyrsta af þremur í Nordic Biodiversity Framework verkefninu. Fulltrúar níu ráðuneyta, tíu ríkisstofnana og átta tengdra aðila tóku þátt. Fram kom að líffræðileg fjölbreytni fær takmarkaða athygli í stjórnsýslunni. Þátttakendur lögðu áherslu á mikilvægi samráðs, samstarfs og samþættingar líffræðilegrar fjölbreytni í stefnumótun, auk þess að þörf sé á að tryggja að loftslags- og skipulagsmál styðji við líffræðilega fjölbreytni. Kallað var m.a. eftir aukinni fræðslu, fjármögnun og stofnun fagráðs um líffræðilega fjölbreytni.
Tvær vinnustofur voru haldnar í viðbót, í Finnlandi og Danmörku, sem leiddu í ljós mismunandi áskoranir. Sameiginlegar áskoranir eru meðal annars samkeppni milli náttúruverndar og atvinnu-/öryggishagsmuna, takmarkaður skilningur á lykilhugtökum og ófullnægjandi stefnur og fjármögnun. Líffræðileg fjölbreytni hefur almennt ekki verið nægilega samþætt í íslensk lög og stefnur. Ekki er vitað hver staðan er varðandi innleiðingu markmiða GBF, en ljóst er að Ísland er langt frá því að ná þeim. Þrátt fyrir þetta eru jákvæð teikn á lofti og vaxandi vitund um málefnið, bæði hjá almenningi og stjórnvöldum.
