Náttúruminjasafnið á Vísindavöku
Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun kynntu spennandi heim vatnsins fyrir gestum og gangandi á Vísindavöku Rannís laugardaginn 27. september.
Á sameiginlegum bás okkar fengu gestir litlar litabækur og tattúlímmiða með myndum af margs konar smásæjum vatnalífverum sem vöktu mikla lukku. Úrval úr safnkosti Náttúruminjasafnsins var til sýnis og hægt að rýna í örlitla kuðunga með stækkunarglerum og skoða lifandi rykmýslirfur, fullorðið rykmý og örvistkerfi í gegnum víðsjár. Þá var Kortagluggi Íslands, hin glænýja og efnismikla kortasjá Náttúrufræðistofnunar til kynnis.
Stofnanirnar tvær eru báðar þátttakendur í verkefninu Icewater sem er stórt og metnaðarfullt verkefni sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Verkefnið er leitt af Umhverfis- og orkustofnun og er unnið í nánu samstarfi við fjölbreyttan hóp íslenskra samstarfsaðila á borð við fagstofnanir ríkisins, sveitarfélög, opinber fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki. Icewater verkefnið er styrkt af LIFE áætluninni og er þetta jafnframt einn stærsti styrkur sem Ísland hefur fengið úr samkeppnissjóðum ESB.



