HÍ og Náttúruminjasafn Íslands efla menntun náttúrufræðikennara
Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Náttúruminjasafn Íslands hafa gert með sér samning fyrir yfirstandandi skólaár sem miðar að því efla menntun náttúrufræðikennara og stuðla að samstarfi og samlegð á sviði miðlunar og rannsókna. Ragnhildur Guðmundsdóttir, settur forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor HÍ, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, undirrituðu samning þessa efnis í Háskóla Íslands nýverið.
Við undirritun samningsins í Háskóla Íslands. Standandi eru Elsa Eiríksdóttir, prófessor við Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið, og Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands. Sitjandi eru frá vinstri eru Silja Bára R. Ómarsdótir, rektor HÍ, Ragnhildur Guðmundsdóttir, settur forstöðumaður Náttúruminjasafns, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs. MYND/Kristinn Ingvarsson
Við Náttúruminjasafnið, sem er eitt þriggja höfuðsafna landsins, starfa sérfræðingar á sviði líffræði og jarðfræði og sérhæft starfsfólk með þjálfun og reynslu í miðlun vísinda. Með samningnum nýja er ætlunin að nýta þessa sérþekkingu meðal annars í samstarfi um menntun kennaranema innan Menntavísindasviðs á sviði náttúruvísinda, en þar er ekki síst horft til kennslu sem tengist náttúru Íslands, sérkennum og sögu. Gert er ráð fyrir að sérfræðingar safnsins sinni kennslu í tilteknum námskeiðum innan Menntavísindasviðs sem snúa að þessum viðfangsefnum og hefur hluti þeirra þegar hafið kennslu.
Silja Bára R. Ómarsdótir, rektor HÍ, Ragnhildur Guðmundsdóttir, settur forstöðumaður Náttúruminjasafns, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs undirrita samninginn. MYND/Kristinn Ingvarsson
Samstarfssamningurinn gerir enn fremur ráð fyrir að nemendur Menntavísindasviðs geti nýtt aðstöðu safnsins í námi og kynnist hvernig það nýtist í kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Enn fremur fá nemendur tækifæri til að þróa fræðsluefni og skipuleggja fræðslu fyrir safngesti og skólahópa um náttúru og vistkerfi Íslands í samstarfi og undir handleiðslu við sérfræðinga Náttúruminjasafnsins. „Það skapast einnig spennandi tækifæri þegar Náttúruhús í Nesi verður tekið í notkun á næsta ári“, segir Silja Bára, rektor Háskóla Íslands, „Við sjáum fyrir okkur að Háskólinn geti stutt við og tekið virkan þátt í uppbyggingu safnsins og þá ekki síst, kennarar og nemendur á sviði náttúruvísinda og náttúrufræðikennslu.“
Einnig er gert ráð fyrir að starfsfólk NMSÍ fái tækifæri til að nýta aðstöðu Menntavísindasviðs eftir nánara samkomulagi. Þá er markmið samningsins jafnframt að hvetja bæði fræðimenn og nema hjá stofnunum tveimur til að eiga samstarf um rannsóknir og miðlun á sínum fræðasviðum.

