Ragnhildur Guðmundsdóttir skipuð forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands
Ragnhildur Guðmundsdóttir, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Ragnhildur Guðmundsdóttir hefur verið skipuð í embætti forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands af Loga Einarssyni, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra frá og með 1. febrúar næstkomandi en hún hefur sinnt embættinu sem settur forstöðumaður síðan í maí á síðasta ári.
Ragnhildur er með doktorspróf í ferskvatnsvistfræði frá Háskóla Íslands, meistarapróf í sjávarvistfræði frá Háskólanum í Tromsø og Háskólasetrinu á Svalbarða, bakkalárgráðu frá Háskóla Íslands í líffræði og kennslufræðidiplómu frá sama skóla. Ragnhildur hefur starfað við Náttúruminjasafnið síðan 2021 en áður sinnti hún kennslu við Háskóla Íslands, Verzlunarskóla Íslands og starfaði þar áður á Hafrannsóknarstofnun.
Náttúruminjasafn Íslands stendur á tímamótum þar sem nú er unnið að því að safnið fái nýtt og glæsilegt húsnæði við Safnatröð á Seltjarnarnesi og hefji starfsemi með nýrri grunnsýningu í húsinu. Jafnframt vinnur starfshópur að gerð frumathugunar á mögulegri sameiningu safnsins og Náttúrufræðistofnunar. Ragnhildur mun því leiða safnið í gegnum fyrirséðar breytingar vegna flutnings sem og taka þátt í vinnu starfshóps við gerð frumathugunar.
Náttúruhús í Nesi, framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands.