Silfurmáfur (Larus argentatus)
Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur o.fl.) og litla máfa (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur). Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúningi og uns kynþroska er náð, eru flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Þeir skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin fella þeir allt fiður (ágúst−október), en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).
Fyrsta árs silfurmáfur í Þorlákshöfn.
Fullorðinn silfurmáfur í Garði.
Silfurmáfspar í Þorlákshöfn, karlinn til vinstri.
Silfurmáfur á þriðja vetri í Þorlákshöfn.
Útlit og atferli
Silfurmáfur er stærsti máfurinn með grátt bak og svarta vængbrodda. Hann er nokkru minni en hvítmáfur og eilítið stærri en sílamáfur, sterklega vaxinn með hlutfallslega stutta, breiða vængi. Fullorðinn fugl er hvítur á höfði og að neðan, en ljósgrár á baki og yfirvængjum. Vængbroddar eru svartir með hvítum dílum. Ungfuglar á fyrsta ári eru, líkt og sílamáfar á sama aldri, dekkstir ungra máfa. Þeir þekkjast frá sílamáfum á ljósara yfirbragði, ljósu svæði á innanverðum framvæng og fjaðrajaðrar á stórþökum eru ljósari. Svartur bekkur er á stéli. Á öðru ári verða bak og yfirvængir grá og kviður og bringa ljós. Á þriðja ári lýsast fuglarnir enn, en þó vottar fyrir svarta stélbandinu og þeir fá fullan skrúða á fjórða ári.
Goggur er gulur með rauðan blett á neðra skolti á fullorðnum fugli. Fætur eru ljósbleikir. Á ungfugli er goggur dökkbrúnn og fætur brúnir, hvorutveggja lýsist með aldrinum. Augu eru brún á ungfugli en ljósgul með rauðan augnhring á fullorðnum. Röddin líkist rödd hvítmáfs en tónhæð er meiri.
Fluglag og hegðun er svipuð og hjá öðrum stórum máfum. Silfurmáfur er félagslyndur og er oft í félagsskap annarra máfa.
Að ofan og niður: silfurmáfur á 2. ári, fullorðinn og á 1. ári í Þorlákshöfn.
Silfurmáfshreiður í Krossanesborgum.
Silfurmáfshjón í tilhugalífinu í Þorlákshöfn.
Silfurmáfur fæðir fullvaxta unga á Þórshöfn.
Lífshættir
Silfurmáfurinn lifir á fjölbreyttri fæðu, svo sem fiski, krabbadýrum, skeldýrum, skordýrum, hræjum og úrgangi, sem hann tekur á sjó, í fjörum eða af landi.
Hann verpur í byggðum í grasbrekkum, klettum, eyjum og jafnvel á söndum nærri sjó, stundum innan um aðra stóra máfa. Hreiðrið er allvönduð dyngja úr þurrum gróðri, sprekum og þangi. Eggin eru oftast þrjú og er álegutíminn rétt rúmar fjórar vikur. Ungarnir verða fleygir á 5–6 vikum.
Silfurmáfur hóf varp hér á landi upp úr 1930 og hefur alla tíð verið algengastur á
Austfjörðum. Hann verpur nú um land allt nema við Breiðafjörð og á Vestfjörðum en þar er veldi hvítmáfsins. Þessir tveir máfar blandast og eru kynblendingarnir frjóir. Stofninn er talinn vera 5.000–10.000 pör. Hann er á válista en er samt ófriðaður!
Silfurmáfur er að nokkru leyti farfugl en það eru aðallega ungfuglar sem fara til Bretlandseyja á veturna. Honum hefur fækkað töluvert í Evrópu og er hann nú á válista. Hér á landi benda vetrarfuglavísitölur 1985–2014 til samfelldrar fækkunar frá 1990.
Þjóðtrú og sagnir
Þar sem silfurmáfur er nýlegur landnemi, er ekkert í þjóðtrúnni tengt honum beint. En hjá nágrannaþjóðunum skipar hann stærri sess, þar sem hann hefur verið algengasti stóri máfurinn um aldir. Hann og aðrir máfar eru oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna.
Tveggja ára silfurmáfur í Keflavík.
Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson