Hornsíli
Vissir þú að hornsíli eru algengustu fiskar í fersku vatni á Íslandi? Þau er nær alls staðar að finna, í tjörnum, ám en líka í sjó. Hornsílin eru aðeins 4–6 sm löng. Bak- og kviðuggar hafa umbreyst í gadda og í stað hreisturs eru hornsíli með brynplötur til varnar. Hornsíli hrygna á vorin og fram á sumar. Þá breyta hængarnir um lit og verða skærrauðir á kviði. Þeir helga sér óðul og gera sér kúlulaga hreiður sem er opið í báða enda. Hængurinn lokkar til sín hrygnur sem hrygna í hreiðrið, hann sprautar sæði yfir eggin og frjógvar þau. Hrygnan kemur ekki nálægt umönnun hrogna eða seiða en hængurinn ver hreiðrið og reynir að laða þangað fleiri hrygnur.