Álka (Alca torda)
Útlit og atferli
Álkan er miðlungsstór svartfugl. Í sumarbúningi er hún svört á höfði, hálsi og baki en hvít á bringu og kviði. Yfirvængur er svartur með hvítum afturjaðri en undirvængur að mestu hvítur. Á veturna eru framháls, kverk og hlustarþökur hvít. Álka líkist langvíu og stuttnefju en er hálsstyttri og með hærri gogg.
Álka flýgur hratt og beint með teygðan háls, lágt yfir haffleti. Er létt á sundi og sperrir þá oft stél og jafnvel gogg. Nýtur sín vel í kafi. Á erfitt um gang, situr á ristinni og heldur jafnvægi með stélinu. Henni svipar til langvíu og stuttnefju og er félagslynd eins og þær. Á varpstöðvum gefur álka frá sér rýtandi „urr“ og ungar flauta.
Lífshættir
Álka kafar eftir fiski og notar vængina til að kafa með eins og aðrir svartfuglar, hún „flýgur“ neðansjávar. Fæðan er aðallega smáfiskur eins og sandsíli, loðna og síld, í minna mæli ljósáta og aðrir hryggleysingjar.
Álkan heldur sig bæði á grunnsævi og dýpra. Verpur í byggðum við sjó, björgum eða grýttum urðum. Verpur oftast í sprungum eða undir steinum en einnig á berar syllur. Eggið er aðeins eitt og klekst á 5 vikum. Ungarnir yfirgefa vörpin aðeins 2–3 vikna gamlir, seinni hluta júlímánaðar, löngu áður en þeir verða fleygir, og elta foreldrana á haf út. Þeir verða fleygir á 7–10 vikum.
Útbreiðsla og stofnstærð
Stærsta álkubyggð heims var lengi vel Stórurð undir Látrabjargi, en um 75% íslenska stofnsins varp í bjarginu fram undir aldamótin. Nú er stærsta byggðin líklega í Grímsey. Álkan er að nokkru farfugl, sumar álkur fara ekki langt, halda sig á hafinu umhverfis landið, meðan aðrar halda sig á hafinu milli Íslands, Færeyja og Noregs Álkan kemur aðeins á land til að verpa.
Veiðar, vernd og válisti
Álka hefur löngum verið nýtt í íslenskum björgum, bæði fuglar og egg. Álku hefur fækkað talsvert og var íslenski stofninn talinn 313.000 pör í kringum 2007, eða 82% af því sem hann var í kringum 1985. Mest var fækkunin í stærstu byggðinni, Látrabjargi, og á Hornströndum, en fjölgun var í Grímsey. Væntanlega hafa álkurnar fært sig þangað því fæðuskilyrði eru betri við eyna nú en við Látrabjarg.
Þar sem meirihluti af álkum heimsins verpur á Íslandi var tegundin sett á heimsválista og evrópskan válista sem tegund í yfirvofandi hættu vegna neikvæðrar stofnþróunar. Hún er í sama flokki á íslenska válistanum frá 2018.
Þjóðtrú og sagnir
Íslensk þjóðtrú segir fátt um álkuna, en trúin tekur iðulega til allra svartfugla og hegðunar þeirra. Það er helst að svartfuglarnir tengist veðurútliti, viti á óveður, sérstaklega slæmar norðanáttir. Þeir boða einnig góðan afla, en sjómenn notuðu og nota enn fugla og hvali til að finna fiskitorfur.
Geirfugl var skyldur álku, stór fugl og ófleygur, stundum nefndur mörgæs norðursins. Síðustu geirfuglarnir (Pinguinus impennis) voru drepnir í Eldey í byrjun júní 1844.
Lítið hefur verið ort um álkuna í gegnum tíðina, en þeim mun meira um bjargsig og bjargnytjar. Eftirfarandi erindi er úr gamalli færeyskri fuglavísu:
Álka og ont á gólfi sita,
reiða mat á disk,
otan flýgur út í hav
og veiðir feskan fisk.
Dúgvan situr á miðjum bekki.