Naegleria fowleri

Þær leynast víða hætturnar. Í gær birtist frétt á ruv.is um að ákveðin tegund amöbu, Naegleria fowleri, hefði fundist í neysluvatni í bænum Lake Jackson í Texas í Bandaríkjunum. Hún getur sýkt menn og valdið lífshættulegum heilaskaða, en þekkt tilfelli eru afar fá og flest við miðbaug. Þessi tegund finnst víða, er hitaþolin og þrífst helst í heitu vatni, jafnt úti í náttúrunni, t.d. í vatnshverum og laugum í Yellowstone þjóðgarðinum og stöðnuðu vatni í grunnum tjörnum, sem og við manngerðar aðstæður, m.a. í hitaveitukerfum og affallsvatni orkuvera. Amaban Naegleria fowleri hefur ekki fundist hér á Íslandi og reyndar engin sem er náskyld henni. Því er óhætt að bregða sér áfram í heitu pottana í sundlaugunum því þar er vatnið blandað klór sem drepur örverur.

Tölvugerð mynd af þremur formum amöbunnar Naegleria fowleri.