Jaspis
Jaspis er nokkuð algeng síðsteind á Íslandi og finnst einkum sem holu- og sprungufylling í eldra bergi landsins. Jaspis er að mestu úr kísiloxíði (SiO2) en oft eru í steindinni önnur efni, svo sem járn, sem gefa henni lit. Algengustu litarafbrigðin eru rauð og gul en græn finnast einnig og jafnvel önnur enn sjaldgæfari. Stundum eru mörg litarafbrigði í sömu steindinni.
Jaspis er alltaf ógegnsær með fitu- eða glergljáa. Þar sem jaspis er kvarssteind þá er harka hans frekar mikil, eða 7 af 10 stigum og er því hægt að rispa gler með jaspis.