Brandönd (Tadorna tadorna)
Útlit og atferli
Brandöndin er stór og skrautleg önd sem minnir talsvert á gæs og tilheyrir svokölluðum gásöndum. Í fjarska virðist brandönd vera hvít með dökkt höfuð. Höfuðið er svart og hálsinn með grænni slikju, og brúnt belti nær upp á bakið. Dökk rák nær frá bringu eftir endilöngum kviði aftur á gump. Gumpurinn er gulur og stélið dökkt í endann. Axlarfjaðrir eru svartar og hand- og armflugfjaðrir svartleitar með grænum spegli. Að öðru leyti er vængurinn hvítur. Kynin eru mjög lík, steggurinn er þó litríkari en kollan, auk þess sem hann hefur dökkrauðan hnúð við goggrót. Fullorðnir fuglar í fjaðrafelli eru ljósari og litdaufari og minna á ungfugla. Ungfuglar eru mógráir að ofan, hvítleitir á vöngum og framhálsi og án brúna bringubeltisins.
Brandandarsteggur á flugi á Djúpavogi.
Brandandarhjón á Djúpavogi.
Goggur beggja kynja er rauður, en steggurinn er með rauðan hnúð sem er einkum áberandi á varptíma. Fætur eru bleikrauðir. Ungfuglar eru með grábleikan gogg og fætur. Brandöndin er þögul nema á varptíma, þá heyrist lágstemmt flaut og tíst frá steggnum en kvak og garg frá kollunni.
Brandendur eru léttar á sundi, léttar til gangs og hefja sig snöggt til flugs, án tilhlaups. Áberandi hálslangar á flugi. Minna því mjög á gæsir, auk þess sem kynin sjá saman um uppeldi unga eins og hjá þeim. Liturinn greinir þær þó alltaf frá gæsum.
Brandandarsteggur í biðilsham á Djúpavogi.
Nýfleygir brandandarungar á flugi í Borgarfirði.
Brandandarsteggir takast á í Sandviki við Ölfusá.
Lífshættir
Brandöndin leitar ætis á yfirborði leira, hreyfir hausinn til hliðanna og notar gogginn til að sía úr leðjunni þörunga, snigla, smáskeljar, skordýr og orma. Hálfkafar einnig á grunnu vatni.
Kjörlendi brandandar eru leirur og grunnsævi. Erlendis verpur hún gjarnan í kanínuholum nærri sjó. Hér á landi hafa hreiður fundist í húsum, undir sumarbústöðum, á ruslahaugum, undir gömlum bátum og víðar. Í Breiðafirði ættu lundaholur að gagnast sem varpholur. Hreiðrið er dæmigert andahreiður, fóðrað með dúni. Eggin eru 8–11, hún liggur á í rúmar fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á um 7 vikum.
Brandandahópur á flugi í Borgarfirði.
Brandandarhjón með nýklakta unga í Borgarfirði.
Brandandarhreiður í Hamarsfirði.
Brandandarkolla með stálpaða unga á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.
Landnám, útbreiðsla og stofnstærð
Brandöndin er að mestu farfugl. Hún var strjáll flækingur hér á landi þar til árið 1990 er hún varp í fyrsta sinn svo vitað sé, í Eyjafirði. Síðan hefur henni fjölgað jafnt og þétt og verpur nú í flestum landshlutum, þó síst um miðbik Austurlands og Suðurland. Höfuðstöðvar brandandar eru í Borgarfirði. Íslenski stofninn er talinn vera um 300 varppör og verpa 60% í Borgarfirði. Þar sjást síðsumars hundruð brandanda, allt að 1400, að stórum hluta geldfuglar en einnig um 160 varppör með unga. Aðrir mikilvægar varpstöðvar eru í Breiðafirði og á Melrakkasléttu. Íslenskir fuglar eru að stærstum hluta farfuglar, en ekki er vitað hvar þeir halda sig á veturna. Stöku fuglar sjást þó stundum um hávetur. Brandönd verpur með ströndum fram víða í Evrópu og austur um miðbik til Kína.
Núverandi varpútbreiðsla brandandar.
Þjóðtrú og sagnir
Eins og með aðra nýja landnema, hefur engin þjóðtrú orðið til kringum brandöndina.
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson