Bóka- og ritsafn Náttúruminjasafnsins er tvískipt. Annars vegar eru nýleg eintök á sviði safna- og náttúrufræða sem Náttúruminjasafnið hefur keypt á undanförnum árum. Um 100 titlar af þessu tagi eru í fórum safnsins. Hins vegar er allmyndarelgur safnkostur sem aðallega er til kominn sem gjafir handa Náttúruminjasafninu. Bóka- og ritkostur Náttúruminjasafnsins er ekki til útláns en hann má nota í húsakynnum safnsins.
Bóka- og tímaritakostur – gjafir til Náttúruminjasafnsins:
Bóka- og tímaritagjöf Vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla. Afhent í apríl 2014. Frumkvæði að gjöfinni átti Pétur M. Jónasson, fyrrv. prófessor og forstöðumaður Vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla. Um er að ræða handbækur og tímarit einkum á sviði vatnalíffræði, alls 495 bókatitlar (560 bækur) og 23 tímarit (840 eintök). Flest verkin eru gömul og gefin út á tímabilinu 1850–1950. Elsta bókin er frá 1805 en alls eru 68 bækur frá tímabilinu 1805–1900. Á meðal bókanna eru fágæt og verðmæt verk, auk langra tímaritaraða á sviði vatnalíffræði sem hvergi eru til hér á landi og óvíða annars staðar í Evrópu. Upphaflega veitti Náttúrufræðistofa Kópavogs gjöfinni viðtöku í nóvember 2011 og sá um skráningu safnkostsins í Gegni.
Hýsing Náttúrufræðistofunnar á gjöf Vatnalíffræðideildarinnar var hugsuð til bráðabirgða, m.a. vegna skorts á geymslurými, og gerð í tíð þáverandi forstöðumanns stofunnar, dr. Hilmars J. Malmquists. Hilmar stundaði nám við Vatnalíffræðideild Hafnarháskóla í Hillerød á árunum 1985-92 og sinnti rannsóknum í Þingvallavatni um skeið undir forystu Péturs M. Jónassonar.
Bóka- og tímaritagjöf úr einkasafni Péturs M. Jónassonar. Afhent í apríl 2014. Um 500 bókatitlar og fjögur tímarit um náttúrufræðilegt efni, einkum á sviði vatnalíffræði. Á meðal titla eru fágætir dýrgripir. Gjöfin er á fjórum trébrettum, nær fjögur tonn að þyngd. Skráning á safnkostinum í Gegni stendur fyrir dyrum.
Náttúrufræðingurinn. Allur Náttúrufræðingurinn frá upphafi árið 1931 og til dagsins dag er hýstur hjá Náttúruminjasafninu. Afgreiðsla tímaritins er á vegum Náttúruminjasafnsins og hægt er að kaupa eintök í lausasölu. Sjá nánar um verð og fleira hér á heimasíðu Náttúruminjasafnsins.