Náttúrufræðingurinn mættur!

Náttúrufræðingurinn mættur!


Hestar í haga, síldin sem hvarf, talningar mófugla, rykmyndun og gervigígar. Allt þetta og meira til er umfjöllunarefni í nýjum Náttúrufræðingi, 3.–4. hefti 89. árgangs sem kominn er út. 

Hestar eru félagslyndar skepnur og mynda mismikil tengsl við aðra og óskylda hesta. Þeir kljást og þeir slást – en af hverju? Hrefna Sigurjónsdóttir og Sandra Granquist hafa tekið saman niðurstöður 15 ára rannsókna á félagshegðun 426 hesta í 20 hópum. Niðurstöður sýna að samsetning hópsins hefur mikil áhrif á það hversu árásargjörn hrossin eru.

Silfur hafsins.

50 ár eru liðin frá því ofveiði leiddi til hruns í þremur síldarstofnum við landið í lok 7. áratugar síðustu aldar. Sumargotssíldin tók við sér nokkrum árum síðar og norsk-íslenski vorgotssíldarstofninn tók að vaxa tæpum tveimur áratugum eftir hrunið. Íslenski vorgotssíldarstofninn hefur hins vegar enn ekki náð sér á strik. Guðmundur J. Óskarsson greinir frá rannsóknum á stöðu og afdrifum þessa áður mikilvæga stofns á árunum 1962–2016.

Hljóðaklettar og Rauðhólar í Jökulsárgljúfrum hafa til þessa verið taldir leifar af gossprungu frá nútíma. Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson telja ýmislegt benda til þess að svo sé ekki, heldur séu þessar myndanir gervigígar og hraunstrúktúrar sem myndast hafi við samspil vatns og flæðandi hrauns skömmu eftir að ísaldarjökla leysti á svæðinu.

Þröstur minn góði …

Skógarþresti virtist fjölga nokkuð samkvæmt vöktun á mófuglum í Rangárvallasýslu 2011–2018 en þar hafa fuglarnir verið taldir árlega á 63 stöðum. Aðrar breytingar voru óverulegar á þessu tímabili. Tómas Grétar Gunnarsson og Böðvar Þórisson greina frá rannsóknunum en Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á nokkrum stofnum mófugla, sem eru einkennisdýr hérlendis og af heimsstofni sem verpur á Íslandi að stórum hluta.

Uppfok frá Dyngjusandi barst í Loðmundarfjörð í ágúst 2012.

Rykmyndun á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og nemur milljónum eða tugmilljónum tonna ár hvert. Rykið mótar öll vistkerfi á Íslandi og leggur til áfokið sem er móðurefni jarðvegs á Íslandi. Rykið hindrar endurkast sólarljóss og getur aukið bráðnun á yfirborði snævar, sem hvort tveggja hraðar loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Ólafur Arnalds, Pavla Dagsson-Waldhauserová og Sigmundur Helgi Brink fjalla um sandfok, ryk og áfok á Íslandi í síðari grein af tveimur um Sandauðnir, sandfok og ryk á Íslandi.

Af öðru efni í ritinu má nefna ritrýni um tvær bækur. Þær eru: Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur og Mosar á Íslandi eftir Ágúst H. Bjarnason. Þá eru birt eftirmæli um Pál Hersteinsson dýrafræðing sem lést fyrir aldur fram á árinu 2011 auk greina Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúrufræðinginn. Félagið er 130 ára á árinu 2019 og tímaritið nírætt 2020 og eru með elstu félagasamtökum og tímaritum á landinu.

Þetta er 3.–4. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 92 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Efnisyfirlit 3.–4. heftis Náttúrufræðingsins, 89. árgangs.

 

 

Spennandi sunnudagur á nýju ári

Spennandi sunnudagur á nýju ári

Hinir mánaðarlegu viðburðir á sýningu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni hefjast á nýju ári næstkomandi sunnudag, 5. janúar kl. 14. Að þessu sinni munu kennarar safnsins fræða gesti um hvernig hægt er að þekkja og greina steina sem við finnum úti í náttúrunni. Gestir fá verkefni til að vinna og læra þannig að greina steina á útlitinu þar sem stuðst er við einkenni eins og lögun, lit, stiklit, gljáa og hörku.

Aðgangur á viðburðinn er ókeypis. Tilvalin skemmtun og fróðleikur fyrir alla fjölskylduna.

Vel heppnaður afmælisdagur

Vel heppnaður afmælisdagur

Það var vel mætt á eins árs afmæli sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni sunnudaginn 1. desember. Ný stuttmynd frá BBC um uppruna vatnsins var sýnd í Stjörnuverinu og Sævar Helgi Bragason, Stjörnu Sævar og Vísindasmiðja Háskóla Íslands með Ara Ólafsson eðlisfræðing í farabroddi buðu gestum upp á fróðlega vatnagaldra. Áhuginn skein úr andlitum gesta og ekki vantaði viljann til að taka þátt í verklegum þáttum atriðanna sem í boði voru. Frábær og vel heppnaður dagur í alla staði.
Vatnið í náttúru Íslands eins árs!

Vatnið í náttúru Íslands eins árs!

Sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni verður eins árs 1. desember n.k.
Í tilefni af eins árs afmælinu verður mikið um að vera á sýningunni frá kl. 13:30 – 16:00.
Aðgangur ókeypis!

Kl. 13:30 Stjörnuver (1. hæð)
Ný stuttmynd frá BBC um hringrás vatns frumsýnd en einnig býðst gestum að sjá norðurljósamyndina sem þar er í sýningu.

Kl. 14:00 – 16:00 – Vísindasmiðja Háskóla íslands (2. hæð)
Vísindamenn frá Háskóla Íslands ásamt Sævari Helga Bragasyni, Stjörnu-Sævari sýna og kynna undraverða eiginleika vatnsins með tilraunum sem gestir fá að taka þátt

Sjáumst í Perlunni.

Morse-kóði utan á Loftskeytastöðinni

Morse-kóði utan á Loftskeytastöðinni

Á skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafnsins, gömlu Loftskeytastöðinni við Brynjólfsgötu, má sjá ljósaseríu með óhefðbundnu sniði en á þakkanti hússins hefur verið komið fyrir listaverkinu K (Með ósk um svar) eftir Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur. Verkið, sem samanstendur af ljósaperum sem stafa með Morse-kóða tegundaheiti tveggja hvalategunda af válista spendýra: Eubalaena glacialis (íslandssléttbakur) og Balaenoptera musculus (steypireyður), er hluti af sýningu listamannsins í Safnaðarheimili Neskirkju sem stendur til 23. febrúar.

Loftskeytastöðin hluti af sýningu

Loftskeytastöðin hluti af sýningu

​Sunnudaginn 10. nóvember kl. 12 opnar einkasýning Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur Ég hef misst sjónar af þér í Safnaðarheimili Neskirkju. Hluti sýningarinnar teygir anga sína yfir til gömlu Loftskeytastöðvarinnar á Brynjólfsgötu, skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafns Íslands, þar sem eitt verkanna er sýnt á þakkanti hússins.

Á sýningunni gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu og sækir efnivið í andstæða póla; annarsvegar í hinn tilbúna, manngerða heim, og hins vegar í náttúrulegt lífríki sjávar. Sýningin ber með sér áríðandi en þögul skilaboð um stöðu sjávarspendýra á válista og vekur til umhugsunar þá firringu eða fjarlægð sem orðið hefur milli manns og náttúru. Verkin byggja á Morse-kóða, sem notaður er í alþjóðlega stöðluð kallmerki, og birtist m.a. í ljósaseríum í gluggum og utanhúss. Þannig seilist sýningin út í almannarýmið og tengir saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega).

Nánar um sýninguna:

Frá örófi alda hefur maðurinn þróað með sér leiðir til að ná áttum, ýmist í landfræðilegum eða andlegum skilningi. Allt frá því  að siglingar yfir úthöf urðu mögulegar hefur siglingafræðin verið einn aðal drifkraftur slíkrar þróunar, og með auknum hreyfanleika og fjarlægðum þróuðust leiðir til fjarskipta, eins og Morse-kóðinn. En hreyfanleiki mannsins og allar þær tækniframfarir sem honum fylgdu fólu einnig í sér myrkari afleiðingar. Andstæðuparið “við og hinir” varð að varanlegu valdatæki nýlenduvæðingarinnar, sem á dramatískan hátt riðlaði jafnvægi ekki eingöngu milli ólíkra hópa fólks heldur einnig milli manns og náttúru.

Síðan Morse-kóðinn var tekinn í notkun á fyrri hluta 19. aldar hefur hann leikið lykilhlutverk í samskiptum varðandi sjávarháska, hernað og annan voða. Kóðinn er eins konar stafróf þar sem bókstafir eru myndaðir með stuttum og löngum einingum og má segja að sé undanfari að því tvíundarkerfi sem forritunarmál tölvunarfræðinnar byggir á í dag. Til að einfalda samskipti við sjó- og loftför enn frekar hefur maðurinn þróað sérstakt kallmerkjakerfi, einskonar tungumál sem nær yfir takmörk allra annarra tungumála. Kerfið er byggt upp af merkjum sem tákna ýmisskonar tæknilegar skipanir eða spurningar, sem gilda í fyrirframgefnum sviðsmyndum. Merkin er hægt að tákna með ólíkum leiðum, s.s. hljóði, ljósi eða reyk. Merkin eru stöðluð og gefin út í Alþjóðlegri handbók merkjasendinga (International Code of Signals), en þekktast þeirra er neyðarmerkið SOS.

Á þessari sýningu gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu, eða öllu heldur sambandsleysi. Efniviðurinn er sóttur í andstæða póla, þar sem manngerðu efni er teflt saman við hinn lífræna heim svo úr verður áhugavert samspil milli ólíkra lífheima og tímabila. Fundið efni, eins og Morse-kóðinn og valin kallmerki mynda efnivið sýningarinnar og eru sett í óvænt samhengi. Í Safnaðarheimili Neskirkju er sérvöldum kallmerkjum varpað fram, skilaboðum sem fylgja nákvæmum reglum í tilbúnu samskiptakerfi. Kallmerkin „EP“ (“Ég hef misst sjónar af þér”) og „FC2“ (“Gefðu upp stöðu þína með sjónrænu merki”) eru tjáð með ljósaseríum í gluggum sýningarrýmisins, og lesast utan frá. Þau má túlka sem ákall mannsins til náttúrunnar, sem svarar til baka með kallmerkjum eins og „QL“ (“Snúið við”) eða „NC“ (“Ég er í hættu og þarfnast tafarlausrar hjálpar”). Köll náttúrunnar eru stöfuð á steintöflur með skeljum, þangi, kóral, eða hvalstönnum, og minna á steingervinga eða forngripi á safni.

Hluti sýningarinnar teygir anga sína til gömlu Loftskeytastöðvarinnar við Brynjólfsgötu, sem í dag hýsir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands. Þegar stöðin var tekin í notkun árið 1918 komust á þráðlaus fjarskipti við umheiminn, en loftskeyti voru send og móttekin í Morse-kóða með útvarpsbylgjum. Á þakkanti hússins er verkið „K“ („Með ósk um svar“). Verkið samanstendur af ljósaperum sem stafa tegundaheiti tveggja hvalategunda af válista spendýra: “Eubalaena glacialis” (Íslandssléttbakur) og “Balaenoptera musculus” (Steypireyður).

Sem heild tengir sýningin saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega). Báðar stofnanir ávarpa náttúruna með því að senda köll út í óræðar víddir, ýmist í vísindalegum eða heimspekilegum skilningi.

Í tóni sumra kallmerkjanna má greina eftirsjá og jafnvel ótta. Maðurinn virðist hafa misst sjónar af náttúrunni og biður hana um að gefa sér merki; einhverskonar vegvísi svo hann geti ratað rétta leið, náð áttum á ný. Náttúran svarar með neyðarkalli og varar við óræðri en aðsteðjandi hættu. Þessi varnaðarorð hljóma kunnuglega í orðræðu samtímans, en virðast þó ekki hafa tilskilin áhrif. Sýningin vekur upp áleitnar spurningar um tungumálið og tengsl manns og náttúru. Er tungumálið ef til vill ekki lengur merkingarbært? Þarf ef til vill aðra miðla til að skilaboðin komist í gegn, eða annan miðunarbúnað til að sigla eftir?