Frábær árangur hjá sumarstarfsmönnum

Frábær árangur hjá sumarstarfsmönnum

Í sumar tók Náttúruminjasafn Íslands þátt í átaksverkefni Vinnumálastofnunar um sumarstörf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri. Safnið auglýsti eftir námsmönnum á háskólastigi til starfa og voru sjö nemendur ráðnir til tveggja mánaða. Verkefnin voru ólík og tengdust vinnu við rannsóknir, skráningu muna og grafíska hönnun. Vinnan fór fram úti um land meðal annars á Breiðdalsvík. Vinnan við þessi verkefni gekk fádæma vel og vilja starfsmenn Náttúruminjasafnsins og umsjónamenn verkefna þakka einstaklega góða samvinnu við nemendur og sömuleiðis Vinnumálastofnun sem skipulagði átakið.
Flokkun og skráning steinasafns á Breiðdalsvík

Verkefnið á Breiðdalsvík á sér nokkurra ára aðdraganda en Náttúruminjasafni Íslands hefur boðist að taka við og eignast eitt merkasta og stærsta steinasafn landsins, steinasafn Björns Björgvinssonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. 

Safnkosturinn samanstendur af 10 til 15 þúsund eintökum steinda og holufyllinga og er að grunni til þrjú steinasöfn sem Björn eignaðist, steinasöfn Reynis Reimarssonar, Kjartans Herbjörnssonar og Svavars Guðmundssonar.

Safnkosturinn var aðeins skráður að hluta og var því mikill fengur að fá jarðfræðingana Irmu Gná Jóngeirsdóttur og Madison Lin MacKenzie til að vinna að fullnaðarskráningu og myndatöku á safnkostinum í sumar. Umsjón með vinnunni fyrir hönd safnsins hafði Þóra Björg Andrésdóttir, jarðfræðingur.

Vinnan fólst í að skrá á stafrænt form og ljósmynda þann hluta safnkostsins sem þegar var skráður og einnig óskráð eintök. Skráðu þær Irma og Madison hvorki meira né minna en 4000 færslur í sumar ásamt því að pakka safnkostinum á viðunandi hátt og voru afköst þeirra og útsjónasemi til fyrirmyndar. Meðal þeirra steinda sem þær skráðu í miklum fjölda eru jaspis, ópall, kalsedón, agat, onyx, bergkristall, sitrín, ametýst, kalsít, silfurberg, aragonít, flúorít, barrýt, skólesít, mesolít, mordenít, stílbít, heulandít, thomsonít, apófyllít, iilvaít og pýrít. Jarðfræðingarnir höfðu vinnuaðstöðu við skráninguna á Breiðdalsvík en greining, myndataka og pökkun sýnanna fór fram í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Stefnt er að að sýna þetta merka steinasafn á Breiðdalsvík og þegar er hafin vinna við að finna þar viðeigandi húsnæði til sýningahalds og fræðslu um jarðfræði Austurlands og einkum hina fornu megineldstöð í Breiðdal, sem var virk fyrir um 8–10 milljónum ára.
Stafræn vísindamiðlun til almennings

Elsa Rakel Ólafsdóttir, mastersnemi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands, starfaði sem grafískur hönnuður fyrir Náttúruminjasafnið í sumar. Starfssvið hennar var víðfeðmt en fólst einkum í aðstoð við korta- og myndvinnslu í tengslum við væntanlega ævisögu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem Sigrún Helgadóttir ritar.  Sigurður Þórarinsson var einn fremsti jarðfræðingur Íslendinga, þekktur á alþjóðavettvangi og var fátt í íslenskri náttúru honum óviðkomandi. Sérsvið hans var þó eldfjallafræði og lagði hann í raun grunninn að gjóskulagafræði, þar sem gjóskulög eldstöðva eins og Heklu eru notuð til að aldursgreina bæði fornminjar sem og jarðfræðilega atburði í jarðsögunni. Mörg korta Sigurðar sýna þessi fræði í einkar greinargóðu ljósi og var eitt af verkefnum Elsu Rakelar var einmitt að hreinvinna þau fyrir ævisögu hans, en starfsmenn safnsins nutu jafnframt góðs af þekkingu hennar á sviði markaðsmála og nýtingu samfélagsmiðla.  

Líffræðileg fjölbreytni á Íslandi

Styrkár Þóroddsson líffræðingur vann við verkefni um eðli líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi þar sem sérstök áhersla er lögð á fjölbreytileika innan tegundar. Vinna Styrkárs snérist um að fara kerfisbundið yfir útgefið efni um rannsóknir á hryggdýrum, með sérstakri áherslu á vaðfugla, heimskautaref, hagamýs og háhyrninga. Hann tók saman upplýsingar um breytileika í svipgerð (útliti, atferli og lífssögu) og stofngerð; sem og þá vistfræðilegu þætti sem tengjast þróun og viðhaldi breytileikans. Verkefnið er hluti af stærra verkefni Náttúruminjasafnsins um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi sem stýrt er af dr. Skúla Skúlasyni. Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins, við m.a. Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hrafnamál / Hrafnaþing / Guð launar fyrir hrafninn

Þessi fyrirsögn endurspeglar fjölbreytni og margræðni hrafnsins í náttúru og menningu. Verkefnið felst í því að stefna saman náttúrufræðilegri og menningarlegri þekkingu á hrafninum í skapandi samræðu þannig að leggja megi grunn að nýrri og fjölþættri hugmynd sem gæti orðið fyrsti vísir að fjölfræðilegri fróðleiksnámu fyrir skólastarf á öllum stigum og innblástur fyrir hvers konar skapandi vinnu með hrafninn sem marghliða lífveru: sýningar, texta, myndbönd og kvikmyndir, tónlist, margmiðlun. 

Tveir nemendur, Katrín Vinter Reynisdóttir í MA-námi í ritlist og Rebecca Thompson í MA-námi í líffræði, voru ráðnir í verkefnið en það er unnið í umsjón Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings. Verkefni sumarsins fólst í því að skiptast á hugmyndum og byrja að safna sem fjölbreyttustum fróðleik um hrafninn sem smátt og smátt birtist á vef safnsins. Þá er stefnt að því að hefja á næstu misserum fjölfræðilegt og alþjóðlegt rannsóknarverkefni um það sem hrafnar hafa kennt mönnum í mismunandi menningarheimum.

Náttúrur og fornar frásagnir

Þetta verkefni er kjölfesta í starfi umsjónarmanns, Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings, við að byggja upp umhverfishugvísindi innan Náttúruminjasafnsins. Einn nemandi, Jon Wright, doktorsnemi í norrænni textafræði og BA nemi í íslensku fyrir erlenda stúdenta, starfaði við verkefnið í sumar. Verkefnið „Náttúrur og fornar frásagnir“ er styrkt af stærra verkefni sem kallast Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM:https://snorrastofa.is/snorrastofa/rannsoknir-og-fraedi/rim-verkefnid/) og nær yfir íslenskar frásagnarbókmenntir fram til siðaskipta. Staðhættir og landfræði eru þar snar þáttur sem getur endurspeglað náttúruþekkingu sem er gerólík nútímanum. Því þarf meðal annars að reyna að átta sig á hugsanlegum tengslum bókmenntastarfsemi miðalda við þessa þætti og verkefni Jons fólst í því að taka saman gagnasafn um ritunarstaði handrita allt til siðaskipta. Jon er þjálfaður handritafræðingur (rithandarfræðingur) og skilaði afburðagóðri skrá sem getur haft víðtæk not fyrir ofangreint verkefni sem og fyrir marga aðra fræðimenn sem starfa á þessum vettvangi, að tengja landið og staðhætti við bókmenninguna.

Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafn Íslands undirbýr nú móttöku á einu stærsta og merkasta safni af holufyllingum og bergi í landinu – steinasafni Björns Björgvinssonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Safnkosturinn, sem er 20 til 30 þúsund eintök, samanstendur að grunni til af þremur steinasöfnum sem Björn eignaðist og forðaði frá glötun eða yrðu seld úr landi – steinasöfnum Reynis Reimarssonar og Kjartans Herbjörnssonar, sem báðir eru úr Breiðdal, og safni Svavars Guðmundssonar. Stærstur hluti steinanna er úr Breiðdal og nærliggjandi sveitum.

Meginmarkmið Náttúruminjasafnsins með móttöku steinasafns Björns er að tryggja heildstæða og faglega varðveislu á þessum merka hluta af náttúruarfi Íslands og nýta safnkostinn í fræðslu- og upplýsingaskyni fyrir almenning og fræðasamfélagið – og öðrum þræði til að styrkja innviði á Austfjörðum í tengslum við ferðaþjónustu.

Frá Höskuldsstaðaseli. Frá vinstri: Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður, Irma Gná Jóngeirsdóttir og Madison Lin MacKenzie jarðfræðingar.

Verkefnið hefur verið í deiglunni í rúm þrjú ár. Frumkvæði að aðkomu Náttúruminjasafnsins að verkefninu og dyggur hvatamaður þess er Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur og eigandi Stapa ehf. – jarðfræðistofu. Ómar Bjarki og Björn Björgvinsson voru frumkvöðlar að stofnun Breiðdalsseturs árið 2008 í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík, en setrið er tileinkað enska eldfjallafræðingnum dr. Georg P.L. Walker, (1926 –2005),  og málvísindamanninum Stefáni Einarssyni prófessor (1897–1972) sem ættaður var frá Höskuldsstöðum í Breiðdal. Vænst er góðrar samvinnu við Breiðdalssetur og fyrirhugað rannsóknasetur Háskóla Íslands þar um fræðslu og rannsóknir á safnkostinum.
Skriður komust á verkefnið í sumar þegar tveir jarðfræðingar á vegum Náttúruminjasafnsins, Irma Gná Jóngeirsdóttir og Madison Lin MacKenzie, unnu við fullnaðarskráningu og myndatöku á safnkostinum í Höskuldsstaðaseli. Starf jarðfræðingannna var að hluta til styrkt af átaki Vinnumálsstofnunar um sumarstörf námsmanna vegna COVID-19 veirufaraldursins. Verkið gekk mjög vel og er ráðgert að ljúka skráningu og frágangi sýna næsta sumar.

Safnkosturinn verður varðveittur og hýstur til frambúðar í Breiðdal. Stefnt er að því að setja upp sýningu á Breiðdalsvík er og nú verið að athuga með húsnæði til sýningahaldsins í samráði við heimamenn.

Jarðfræðingarnir Irma Gná og Madison Lin við skráningarstörf.

Þess má geta að í safnkosti Björns er að finna stóreflis fægða granítsteina eftir Sigurð Guðmundsson, hinn kunna listamann sem er m.a. höfundur Eggjanna á Djúpavogi og Fjöruverksins við Sæbraut í Reykjavík. Sigurður hefur sýnt því mikinn áhuga að koma að uppsetningu hnullunganna á Breiðdalsvík.

Það er mikill fengur að því fyrir opinbera fræðslustofnun á borð við Náttúruminjasafnið og þar með ríkið að eignast safnkost sem þennan, sérstaklega þar sem hann hentar vel til sýningahalds og almenningsfræðslu. Þá er vísindalegt gildi safnkostsins afar mikið vegna óvenju ítarlegrar skráningar á fundarstað eintaka sem nýtist vel til rannsókna. Mörg sjaldgæf eintök hafa jafnframt mikið fágætisgildi og enn önnur eru undurfagrir skrautsteinar með mikið fagurfræðilegt gildi.

Stefnt er að því að opna sýningu um þennan merkilega safnkost Björns Björgvinssonar á Breiðdalsvík ekki síðar en sumarið 2022.

Þingvallahefti til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni

Þingvallahefti til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni

Út er komið þemahefti Náttúrufræðingsins um Þingvallavatn. Heftið er gefið út til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni, sem verður eitt hundrað ára gamall n.k. fimmtudag, 18. júní, en Pétur hóf viðamiklar vistfræðirannsóknir á vatninu með 59 vísindamönnum frá mörgum 1974 og stóðu þær fram til ársins 1992, þegar aðrir, margir hverjir nemendur og samstarfsmenn Péturs, tóku við keflinu.

Pétur M. Jónasson verður 100 ára 18. júní n.k. Þessi mynd var tekin 2015 á heimili hans í Danmörku. Ljósm. ÁI.

Þingvallaheftið segir einmitt frá nýjustu rannsóknum á þessu stærsta náttúrulega stöðuvatni Íslands, Vatninu bjarta, eins og Hilmar J. Malmquist nefnir það í leiðara. Þar kennir ýmissa grasa enda eru rannsóknir á Þingvallavatni fjölbreyttar m.a. í atferlisfræði, efnafræði, þróunarfræði, þroskunarfræði, tegundagreiningu, hitaferlum og fæðu seiða. Þar er einnig sagt frá vísindarannsóknum Péturs M. Jónassonar, en sjálfur ritar hann grein í heftið.

Fjölbreyttar rannsóknir

Höfundar í Þingvallaheftinu eru margir: Árni Hjartarson og Snorri Zophóníasson skrifa um Öxará; Snæbjörn Pálsson, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson um Líf í grunnvatni í hraunalindum Íslands; Finnur Ingimarsson, Haraldur Rafn Ingvason, Þóra Hrafnsdóttir, Stefán Már Stefánsson og Kristín Harðardóttir greina frá niðurstöðum í Vöktun svifdýra í Þingvallavatni 2007–2006; Gísli Már Gíslason, Hilmar J. Malmquist og Sigurður S. Snorrason segja frá Vatnavistfræðingnum og frumkvöðlinum Pétri M. Jónassyni; Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir segir frá Hreiðurgerð og hrygningaratferli hornsíla í Þingvallavatni; Gunnar Steinn Jónsson og Kesera Anamthawat-Jónsson skrifa um Notkun rafeindasmásjár við tegundagreiningu svifþörunga í Þingvallavatni; Eydís S. Eiríksdóttir og Sigurður Reynir Gíslason um Efnabúskap Þingvallavatns; Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason, Stefán Már Stefánsson  og Þóra Hrafnsdóttir um Hlýnun Þingvallavatns og hitaferla í vatninu; Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson segja frá Fæðu laxfiskaseiða í Sogi; Tryggvi Felixson segir frá baráttu Péturs M. Jónassonar og Landverndar gegn veginum yfir Lyngdalsheiði í greininni Þingvallavatn og baráttan um veginn; Skúli Skúlason og Sigurður S. Snorrason fjalla um Fjölbreytni og þróun bleikjunnar í Þingvallavatni og loks ritar Pétur M. Jónasson grein sem nefnist: Þingvallavatn og Mývatn – gróðurvinjar á flekaskilum.

Náttúrufræðingurinn í 90 ár

Með þessu hefti hefur Náttúrufræðingurinn 90. árgang sinn en heftið hefur komið samfellt út frá 1930. Heftið er 140 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má nálgast efnisyfirlit heftisins. 
Hægt er að gerast áskrifandi hér.

15 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu

15 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu


Náttúruminjasafn Íslands auglýsir í samstarfi við Vinnumálastofnun eftir 15 námsmönnum til að sinna fjölbreyttum verkefnum í sumar. Störfin tengjast rannsóknavinnu safnsins og gagnaskráningu. Nokkur starfanna eru úti á landi og sumum má sinna í gegnum netið hvar sem er á landinu svo fremi að gott netsamband sé fyrir hendi.

Námsmenn á háskólastigi með viðeigandi menntun eru hvattir til að sækja um. Umsóknir fara í gegnum vef Vinnumálastofnunar.

Hér er skrá yfir verkefnin og störfin á Náttúruminjasafni Íslands sem auglýst eru:

Steinasafn Björns Björgvinssonar – flokkun og skráning á Breiðdalsvík
– 2 jarðfræðinemar

Landafræði handrita – gagnasafn um ritunarstaði handrita, tengsl við staðhætti, náttúrufar og landafræði
– 2 nemar í íslenskum fræðum

Líffræðileg fjölbreytni náttúru á Íslandi – ný stafræn gagnagátt, heimildavinna
– 3 nemar í líffræði eða skyldum greinum

Úrvinnsla vatnalíffræðisýna – vistfræðilegur gagnagrunnur á landsvísu
– 2 nemar í líffræði eða skyldum greinum

Krumminn á skjánum – náttúrufræðilegur og menningarlegur fróðleikur um hrafninn
– 2 nemar, í hugvísindum og líffræði

Frágangur í skjala- og munageymslu Náttúruminjasafnsins – flokkun, röðun og skráning
– 2 nemar í bókasafns- og upplýsingafræði eða önnur menntun sem nýtist í starfi

Stafræn vísindamiðlun til almennings
– 1 nemi í grafískri hönnun

Gagnaskráning og tilfallandi störf fyrir NMSÍ
– 1 nemi í bókasafns- og upplýsingafræði

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar kemur út vorið 2021

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar kemur út vorið 2021

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur veitt Náttúruminjasafns Íslands 1,5 milljónir króna til að gefa út stórvirki Sigrúnar Helgadóttur rithöfundar um ævi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Sigrún hóf ritun ævisögunnar 2014 og hefur frá árinu 2015 notið stuðnings frá Náttúruminjasafninu og haft þar endurgjaldslausa aðstöðu. Þessi myndarlegi styrkur kemur til viðbótar við 4ra milljón króna styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti til Sigrúnar og tryggir að verkið mun koma út í tveimur bindum vorið 2021.

Hver var Sigurður Þórarinsson?

Í ævisögunni leitast Sigrún við að svara spurningunni um hver Sigurður Þórarinsson var. Sigurður sem var fæddur 1912 og lést 1983 var heimsfrægur vísindamaður og brautryðjandi á mörgum sviðum jarðfræði, jöklafræði og öskulagafræði. Hann var einnig flestum betur að sér í fornleifafræði og sögu landsins. Sigurður var þekktur sem ákaflega skemmtilegt vísnaskáld, hagyrðingur og sögumaður, góður ferðafélagi, frábær og hvetjandi kennari og alþýðufræðari en líka hlýr vinur og fjölskyldufaðir. Sigurður var einnig leiftrandi áhugamaður um ýmiss konar þjóðmál, glöggur samfélagsrýnir og hafði mikil áhrif á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Hann var góður ljósmyndari og hluti verksins, sem Oddur Sigurðsson jöklafræðingur kemur að, er einmitt flokkun og skráning myndasafns hans, en margar myndanna munu prýða ævisöguna.

Það fennir í sporin þótt djúp séu

Sigrún segir að þegar aldarafmælis Sigurðar Þórarinssonar var minnst í upphafi árs 2012 hafi komið í ljós að margt ungt fólk þekkti lítið sem ekkert til hans. Slíkt sé eðlilegt því að rúm 30 ár voru þá liðin frá andláti Sigurðar. „Það fennir í sporin þótt djúp séu“, segir Sigrún og bendir á að það væri menningarslys ef samantekt um líf Sigurðar væri ekki skrifuð á meðan enn lifir fólk sem man hann.

Sigrún Helgadóttir er þaulreyndur rithöfundur og kennari. Auk kennslubóka eru útgefnar bækur hennar þessar: Faldar og skart. Faldbúningurinn og aðrir íslenskir þjóðbúningar, 2013, 201 bls.; Þingvellir, þjóðgarður og heimsminjar, 2011, 320 bls.; Foldar skart í ull og fat. Jurtalitun. Með Þorgerði Hlöðversdóttur, 2010, 63 bls.; Jökulsárgljúfur. Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli., 2008, 224 bls. Þá hefur Sigrún skrifað vefsíður, bókarkafla, fjölrit og bæklinga auk fjölmargra greina í blöð og tímarit.

Náttúruminjasafnið gefur verkið út

Náttúruminjasafnið er útgefandi verksins en málefnið er safninu skylt á margan hátt. Nægir að nefna að Sigurður Þórarinsson var um tíma formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags og forstöðumaður land- og jarðfræðideildar Náttúrugripasafns Íslands (nú Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands).

45 hlutu útgáfustyrk

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti að þessu sinni 28,3 milljónum króna í útgáfustyrki til 45 verkefna. Styrkirnir voru frá 1,5 milljónum til 200 þúsund króna, þeir hæstu til ritunar ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, sem fyrr segir, og til verksins Laugavegur, höfundar eru Guðni Valberg og Anna Dröfn Ágústsdóttir. Angústúra gefur út. Hér má sjá yfirlit yfir úthlutun sjóðsins og styrkþega 2020.

https://www.islit.is/frettir/fjolbreyttar-baekur-um-bokmenntir-natturu-byggingalist-sagnfraedi-tungumal-og-fleira-fa-utgafustyrk