Þingvallahefti til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni

Þingvallahefti til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni

Út er komið þemahefti Náttúrufræðingsins um Þingvallavatn. Heftið er gefið út til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni, sem verður eitt hundrað ára gamall n.k. fimmtudag, 18. júní, en Pétur hóf viðamiklar vistfræðirannsóknir á vatninu með 59 vísindamönnum frá mörgum 1974 og stóðu þær fram til ársins 1992, þegar aðrir, margir hverjir nemendur og samstarfsmenn Péturs, tóku við keflinu.

Pétur M. Jónasson verður 100 ára 18. júní n.k. Þessi mynd var tekin 2015 á heimili hans í Danmörku. Ljósm. ÁI.

Þingvallaheftið segir einmitt frá nýjustu rannsóknum á þessu stærsta náttúrulega stöðuvatni Íslands, Vatninu bjarta, eins og Hilmar J. Malmquist nefnir það í leiðara. Þar kennir ýmissa grasa enda eru rannsóknir á Þingvallavatni fjölbreyttar m.a. í atferlisfræði, efnafræði, þróunarfræði, þroskunarfræði, tegundagreiningu, hitaferlum og fæðu seiða. Þar er einnig sagt frá vísindarannsóknum Péturs M. Jónassonar, en sjálfur ritar hann grein í heftið.

Fjölbreyttar rannsóknir

Höfundar í Þingvallaheftinu eru margir: Árni Hjartarson og Snorri Zophóníasson skrifa um Öxará; Snæbjörn Pálsson, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson um Líf í grunnvatni í hraunalindum Íslands; Finnur Ingimarsson, Haraldur Rafn Ingvason, Þóra Hrafnsdóttir, Stefán Már Stefánsson og Kristín Harðardóttir greina frá niðurstöðum í Vöktun svifdýra í Þingvallavatni 2007–2006; Gísli Már Gíslason, Hilmar J. Malmquist og Sigurður S. Snorrason segja frá Vatnavistfræðingnum og frumkvöðlinum Pétri M. Jónassyni; Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir segir frá Hreiðurgerð og hrygningaratferli hornsíla í Þingvallavatni; Gunnar Steinn Jónsson og Kesera Anamthawat-Jónsson skrifa um Notkun rafeindasmásjár við tegundagreiningu svifþörunga í Þingvallavatni; Eydís S. Eiríksdóttir og Sigurður Reynir Gíslason um Efnabúskap Þingvallavatns; Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason, Stefán Már Stefánsson  og Þóra Hrafnsdóttir um Hlýnun Þingvallavatns og hitaferla í vatninu; Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson segja frá Fæðu laxfiskaseiða í Sogi; Tryggvi Felixson segir frá baráttu Péturs M. Jónassonar og Landverndar gegn veginum yfir Lyngdalsheiði í greininni Þingvallavatn og baráttan um veginn; Skúli Skúlason og Sigurður S. Snorrason fjalla um Fjölbreytni og þróun bleikjunnar í Þingvallavatni og loks ritar Pétur M. Jónasson grein sem nefnist: Þingvallavatn og Mývatn – gróðurvinjar á flekaskilum.

Náttúrufræðingurinn í 90 ár

Með þessu hefti hefur Náttúrufræðingurinn 90. árgang sinn en heftið hefur komið samfellt út frá 1930. Heftið er 140 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má nálgast efnisyfirlit heftisins. 
Hægt er að gerast áskrifandi hér.

15 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu

15 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu


Náttúruminjasafn Íslands auglýsir í samstarfi við Vinnumálastofnun eftir 15 námsmönnum til að sinna fjölbreyttum verkefnum í sumar. Störfin tengjast rannsóknavinnu safnsins og gagnaskráningu. Nokkur starfanna eru úti á landi og sumum má sinna í gegnum netið hvar sem er á landinu svo fremi að gott netsamband sé fyrir hendi.

Námsmenn á háskólastigi með viðeigandi menntun eru hvattir til að sækja um. Umsóknir fara í gegnum vef Vinnumálastofnunar.

Hér er skrá yfir verkefnin og störfin á Náttúruminjasafni Íslands sem auglýst eru:

Steinasafn Björns Björgvinssonar – flokkun og skráning á Breiðdalsvík
– 2 jarðfræðinemar

Landafræði handrita – gagnasafn um ritunarstaði handrita, tengsl við staðhætti, náttúrufar og landafræði
– 2 nemar í íslenskum fræðum

Líffræðileg fjölbreytni náttúru á Íslandi – ný stafræn gagnagátt, heimildavinna
– 3 nemar í líffræði eða skyldum greinum

Úrvinnsla vatnalíffræðisýna – vistfræðilegur gagnagrunnur á landsvísu
– 2 nemar í líffræði eða skyldum greinum

Krumminn á skjánum – náttúrufræðilegur og menningarlegur fróðleikur um hrafninn
– 2 nemar, í hugvísindum og líffræði

Frágangur í skjala- og munageymslu Náttúruminjasafnsins – flokkun, röðun og skráning
– 2 nemar í bókasafns- og upplýsingafræði eða önnur menntun sem nýtist í starfi

Stafræn vísindamiðlun til almennings
– 1 nemi í grafískri hönnun

Gagnaskráning og tilfallandi störf fyrir NMSÍ
– 1 nemi í bókasafns- og upplýsingafræði

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar kemur út vorið 2021

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar kemur út vorið 2021

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur veitt Náttúruminjasafns Íslands 1,5 milljónir króna til að gefa út stórvirki Sigrúnar Helgadóttur rithöfundar um ævi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Sigrún hóf ritun ævisögunnar 2014 og hefur frá árinu 2015 notið stuðnings frá Náttúruminjasafninu og haft þar endurgjaldslausa aðstöðu. Þessi myndarlegi styrkur kemur til viðbótar við 4ra milljón króna styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti til Sigrúnar og tryggir að verkið mun koma út í tveimur bindum vorið 2021.

Hver var Sigurður Þórarinsson?

Í ævisögunni leitast Sigrún við að svara spurningunni um hver Sigurður Þórarinsson var. Sigurður sem var fæddur 1912 og lést 1983 var heimsfrægur vísindamaður og brautryðjandi á mörgum sviðum jarðfræði, jöklafræði og öskulagafræði. Hann var einnig flestum betur að sér í fornleifafræði og sögu landsins. Sigurður var þekktur sem ákaflega skemmtilegt vísnaskáld, hagyrðingur og sögumaður, góður ferðafélagi, frábær og hvetjandi kennari og alþýðufræðari en líka hlýr vinur og fjölskyldufaðir. Sigurður var einnig leiftrandi áhugamaður um ýmiss konar þjóðmál, glöggur samfélagsrýnir og hafði mikil áhrif á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Hann var góður ljósmyndari og hluti verksins, sem Oddur Sigurðsson jöklafræðingur kemur að, er einmitt flokkun og skráning myndasafns hans, en margar myndanna munu prýða ævisöguna.

Það fennir í sporin þótt djúp séu

Sigrún segir að þegar aldarafmælis Sigurðar Þórarinssonar var minnst í upphafi árs 2012 hafi komið í ljós að margt ungt fólk þekkti lítið sem ekkert til hans. Slíkt sé eðlilegt því að rúm 30 ár voru þá liðin frá andláti Sigurðar. „Það fennir í sporin þótt djúp séu“, segir Sigrún og bendir á að það væri menningarslys ef samantekt um líf Sigurðar væri ekki skrifuð á meðan enn lifir fólk sem man hann.

Sigrún Helgadóttir er þaulreyndur rithöfundur og kennari. Auk kennslubóka eru útgefnar bækur hennar þessar: Faldar og skart. Faldbúningurinn og aðrir íslenskir þjóðbúningar, 2013, 201 bls.; Þingvellir, þjóðgarður og heimsminjar, 2011, 320 bls.; Foldar skart í ull og fat. Jurtalitun. Með Þorgerði Hlöðversdóttur, 2010, 63 bls.; Jökulsárgljúfur. Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli., 2008, 224 bls. Þá hefur Sigrún skrifað vefsíður, bókarkafla, fjölrit og bæklinga auk fjölmargra greina í blöð og tímarit.

Náttúruminjasafnið gefur verkið út

Náttúruminjasafnið er útgefandi verksins en málefnið er safninu skylt á margan hátt. Nægir að nefna að Sigurður Þórarinsson var um tíma formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags og forstöðumaður land- og jarðfræðideildar Náttúrugripasafns Íslands (nú Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands).

45 hlutu útgáfustyrk

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti að þessu sinni 28,3 milljónum króna í útgáfustyrki til 45 verkefna. Styrkirnir voru frá 1,5 milljónum til 200 þúsund króna, þeir hæstu til ritunar ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, sem fyrr segir, og til verksins Laugavegur, höfundar eru Guðni Valberg og Anna Dröfn Ágústsdóttir. Angústúra gefur út. Hér má sjá yfirlit yfir úthlutun sjóðsins og styrkþega 2020.

https://www.islit.is/frettir/fjolbreyttar-baekur-um-bokmenntir-natturu-byggingalist-sagnfraedi-tungumal-og-fleira-fa-utgafustyrk

Náttúruminjasafnið tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2020

Náttúruminjasafnið tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2020

Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, hefur hlotið tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna 2020. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun afhenda verðlaunin 18. maí n.k. í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Athöfninni verður streymt á samfélagsmiðlum.

Fimm sýningar og/eða verkefni keppa um verðlaunin að þessu sinni og bárust valnefnd 47 ábendingar um 34 verðug verkefni. Það eru Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) sem standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár fyrir framúrskarandi starfsemi.

Forvitnileg og fagleg miðlun

Í umsögn segir:

Mat valnefndar er að sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands höfði til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað til þeirra á forvitnilegan, faglegan og gagnvirkan hátt. Það er mikilvægt að höfuðsafn á sviði náttúruminja sé sýnilegt almenningi. Grunnsýningin er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Opið á ný í Perlunni

Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, var opnuð 1. desember 2018. Sýningar í Perlunni hafa verið lokaðar í samkomubanninu undanfarnar vikur, en nú eru þær aftur opnar alla daga vikunnar frá kl. 12 – 18. Minnt er á tímabundna sýningu safnsins á sama stað um Rostunga, en hún var opnuð rétt áður en samkomubannið skall á.

Aðrir keppendur

Auk Náttúruminjasafnsins hlutu tilnefingu sýningin Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi á Egilsstöðum sem þrjú austfirsk söfn standa að; ný grunnsýning Sjóminjasafnsins, Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár; sýningar Listasafns Reykjavíkur, 2019 – ár listar í almannarými og loks Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafnsins ásamt Handbók um varðveislu safnkosts.

.

Sýningar safnsins í Perlunni opna á ný 4. maí

Sýningar safnsins í Perlunni opna á ný 4. maí

Náttúruminjasafn Íslands mun opna að nýju sýningar sínar VATNIÐ í náttúru Íslands og ROSTUNGAR í Perlunni 4. maí n.k. Til að byrja með verður opnunartími frá 12–18 alla daga vikunnar en mögulegt er að bóka skólaheimsóknir frá kl. 9 á virkum dögum og eru skólahópar boðnir sérstaklega velkomnir.

Viðfangsefni skólahópanna verður með venjubundnum hætti: VATNIÐ sem auðlind, ár og árgerðir, veður og loftslag, myndun og mótun lands, líffræðilegur fjölbreytileiki, þróun lífvera og margbreytileiki votlendis. Hér má fá frekari upplýsingar og bóka skólahópa (linkur)

Við vekjum sérstaka athygli á glænýrri og áhugaverðri sérsýningu safnsins um ROSTUNGA en hún er á sömu hæð og sýningin VATNIÐ í náttúru Íslands.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með fleiri vísindastofnunum, varpar alveg nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Rannsóknin staðfestir að á Íslandi lifði séríslenskur rostungsstofn í árþúsundir en hann dó út á landnámsöld, 800–1200 e.Kr.

Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu þeirra í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands.