110 ár frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar
Í dag, 8. janúar, eru 110 ár liðin frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings, en hann lést 8. febrúar 1983, 71 árs að aldri. Sigurður var einn kunnasti vísindamaður Íslands og þróaði t.a.m. öskulagafræðina, sem nýtt er til aldursákvarðana bæði eldgosa og minja. Sigurður fylgdist með öllum eldgosum sem urðu á landinu eftir að hann kom heim úr námi 1947, beint í Heklugosið, og varð þjóðþekktur fyrir lýsingar sínar á þeim í útvarpi og sjónvarpi. Sigurður var frumkvöðull í náttúruvernd á Íslandi og vinsælt vísnaskáld. Textar hans eru enn sungnir, svo sem Vorkvöld í Reykjavík og María, María.
Í október gaf Náttúruminjasafn Íslands út ævisögu Sigurðar, Mynd af manni, í tveimur bindum, skráð af Sigrúnu Helgadóttur, kennara, líffræðingi og rithöfundi sem hefur sérhæft sig í náttúruvernd og umhverfismennt. Bókin hefur hlotið gríðargóðar viðtökur og er tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, sem veitt verða á næstu mánuðum. Bókina má nálgast í helstu bókaverslunum landsins og á vefsíðu Pappýrs á pappyr.com.