Ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar

- sumardagskrá í Alviðru -

Alviðra fræðslusetur Landverndar stendur í sumar fyrir metnaðarfullri og áhugaverðri sumardagskrá fyrir gesti og gangandi. Náttúruminjasafn Íslands skipuleggur þrjá viðburði í sumar. Laugardaginn 14. ágúst milli kl. 14 og 16 mun Eva Þorvaldsdóttir, líffræðingur hjá Náttúruminjasafninu fjalla um og sýna hvernig nota má ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar.
 
Ætihvönnin (Angelica archangelica) var áður fyrr mikilvæg matjurt á Íslandi. Hún vex víða í landi Alviðru og þar verða laufblöð og stönglar skornir auk þess sem grafnar verða upp rætur.
 
Ætihvönn er stórvaxin jurt sem getur orðið allt að tveggja metra há. Smágerð blómin standa tuttugu til fimmtíu saman í smásveipum sem eru 1,5–2,5 sm í þvermál og skipa sér saman í kúpta eða hálfkúlulaga stórsveipi ofan á sterklegum og gáruðum stöngli með víðu miðholi.
Ætihvönn vex einkum við vatnsmiklar lindir á hálendinu, meðfram lindalækjum og ám en einnig í áburðaríku gróðurlendi. Hún er nokkuð dreifð um allt land en þolir illa stöðuga beit, sem kann að vera skýringin á því að hana vantar á stórum svæðum og eins hversu oft hún finnst í torfærum klettum og hólmum. Hún hefur lengi verið nýtt á margvíslegan hátt, m.a. til matar, lækninga og litunar og hefur verið áberandi í flóru Íslands þegar landið var numið, en um það vitna örnefni á borð við Hvanndalir, Hvanngil, Hvannalindir og Hvanndalabjörg.
 
Viðburðurinn hefst kl. 14 n.k. laugardag í Alviðru og er aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!
Alviðra er í Ölfusi undir Ingólfsfjalli, gegnt Þrastalundi.