Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Eldgosið í allri sinni dýrð í maí.

Gosið í Geldingadölum á 6 mánuðum

Gosið í Geldingadölum hefur nú staðið í 6 mánuði og þó það sé stuttur tími í jarðsögulegum skilningi er þetta gos nú orðið hið lengsta á Íslandi á 21. öldinni. Gönguleiðin að gosinu varð fljótt ein vinsælasta gönguleið landsins, útsýnisflug með þyrlum hafa aldrei verið vinsælli og margir hafa kveikt á beinu streymi vefmyndavéla frá gosstöðvunum heilu og hálfu dagana.

Gostíminn hefur verið kaflaskiptur – ótímabæru andláti gossins hefur oft verið spáð og enn heldur það áfram að heilla almenning og koma jarðvísindamönnum á óvart.  Jarðskjálftahrinan sem staðið hafði lengi fór vart framhjá íbúum á Reykjanesi, en eftir mikinn hristing í meira en 50 þúsund jarðskjálftum hófst eldgos í Geldingadölum þann 19. mars s.l. Fyrsti mánuðurinn einkenndist af hraunflæði út frá upphaflega gosstaðnum og tveir gígar hlóðust upp austan við Fagradalsfjall. Þessir gígar sameinuðust svo er leið á mánuðinn.

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Fyrstu gígarnir 21. mars.

Í apríl náðu jarðfræðingar fyrst að safna gjóskusýnum við gosstöðvarnar, meðal annars vikri og nornahárum. Apríl einkenndist af miklum sviptingum, en dagana 5. –13. apríl opnuðust nýjar sprungur og gosop. Hraun rann í tilkomumiklum hraunfossum niður í Merardali og einnig til austurs úr Geldingadölum. Virkni gíganna var ansi breytileg og í lok apríl var lítil sem engin virkni nema í nýjustu gígunum.

Yngsti gígurinn tók forystuna í maí. Þar var virknin mest og einkenndist af púlsum þar sem kvikustrókurinn tók sér hlé á milli kröftugra stróka. Um miðjan maí voru reistir varnargarðar norður af Nátthaga til að reyna að hindra að hraunið myndi flæða yfir Suðurstrandarveg. Nokkrum dögum síðar, þann 22. maí, fór hraunið yfir garðana og byrjaði að flæða niður í Nátthaga.

 

Í byrjun júní var hraunbreiðan orðin um 3 km2 en 10. júní breyttist virkni gossins, strókavirknin hætti og kvika tók að streyma jafnt og þétt úr gígnum. Hraun hélt áfram að renna í Nátthaga og í byrjun mánaðar lokaðist gönguleiðin upp á aðal útsýnishólinn yfir gosið sem hafði þá fengið nafnið Gónhóll.

Virkni gossins breyttist enn í júlí og varð óstöðugri og með lengri hléum. Hraunflæði hélt þó áfram niður í Merardali og flatarmál hraunbreiðunnar var orðið 4.3 km2.

Í ágúst lék gosið við svokallaðar B-manneskjur og unglinga. Virknin var lítil á daginn, en seinnipart dags hófust svo tilkomumiklar sýningar sem stóðu oft fram á nætur.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Úfið hraunið breiðir úr sér.

Í byrjun september var gosvirkni lítil. Gas hélt þó áfram að rjúka úr gígnum og í myrkrinu mátti sjá glóandi kviku. Spurningar vöknuðu um hvort goslok væri í aðsigi. Eftir rúmlega vikulangt hlé, sem var það lengsta sem orðið hafði frá upphafi goss, tók gosvirkni við sér á nýjan leik þann 11. september. Við nánari athugun á þessari atburðarás kom í ljós að gosrásin upp í gíginn hafði stíflast og gosið því verið virkt allan tímann.

Ómögulegt er að spá fyrir um hvernig eldgosið í Geldingardölum muni þróast eða hvenær því lýkur. Eitt er víst: Gosið heldur áfram að heilla innlenda sem erlenda gesti og nú þegar farið er að rökkva magnast sjónarspilið enn frekar.