Barnamenningarhátíð 2022

Náttúruminjasafn Íslands tók þátt í Barnamenningarhátíð í ár í samstarfi við LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) með verkefninu Hringrás vatnsins á jörðinni en kallað var eftir vatnsdropum – listaverkum tengdum vatni frá upprennandi listamönnum. Nemendur 20 grunn- og leikskóla víðsvegar um landið tóku þátt, sköpuðu listaverk og veltu fyrir sér hringrás vatnsins. Samtals bárust safninu tæplega 1000 vatnsdropar!

Listaverkin sameinuðust í einu stóru listaverki í anddyri sýningarinnar okkar, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni meðan Barnamenningarhátíð stóð yfir, 5.-10. apríl.

 

Hugleiðingar barnanna á Leikskólanum Hálsaskógi voru skrifaðar á dropana þeirra.

Droparnir frá Leikskólanum Fögrubrekku voru litríkir og skemmtilegir.

Droparnir sem börnin á leikskólanum Heiðarborg sköpuðu voru úr textíl og þau skreyttu þá með myndum sem tengjast vatnshringrásinni.

Þriðjudaginn 5. apríl var þátttakendum boðið á opnun sýningarinnar ásamt foreldrum og forráðamönnum, þar sem þau skoðuðu listaverkin og fundu dropana sína. Á opnuninni bauðst börnum að búa til enn fleiri dropa og hengja upp við hlið hinna sem fyrir voru.

Droparnir sem börnin bjuggu til voru fallegir og skemmtilegir. Sumir nemendur höfðu skrifað hugleiðingar um vatnið og óskir fyrir framtíð þess. Þeir voru ýmist flatir eða þrívíðir og efniviðurinn var fjölbreyttur. Flestir voru úr pappír, en við fengum einnig senda dropa úr textíl, leir og jafnvel endurnýttum efnivið.

 

Náttúruminjasafnið þakkar LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) fyrir skemmtilegt samstarf!