Úthlutun Barnamenningarsjóðs 2022
Sunnudaginn 29. maí var Dagur barnsins og hann var sannarlegur gleðidagur fyrir Náttúruminjasafnið þegar 4. úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fór fram. Náttúruminjasafn Íslands er í hópi styrkhafa þetta árið en safnið fékk veglegan styrk til að vinna að þverfaglegu verkefni sem ber heitið List og lífbreytileiki. Verkefnið verður unnið í samstarfi við BIODICE, samstarfsvettvang um líffræðilega fjölbreytni, fjölbreyttan hóp listafólks og börn og ungmenni víðsvegar um landið.
Við hlökkum til að hefjast handa!
Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Sjóðurinn styrkir að þessu sinni 34 spennandi verkefni og nánari upplýsingar um þau má finna hér á heimasíðu Rannís.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs tilkynnti um úthlutanir sjóðsins í ár. Á myndinni á má sjá auk þeirra, Oddnýju Harðardóttur, starfandi forseta Alþingis, styrkþega og Drengjakór Reykjavíkur sem flutti tónlistaratriði á athöfninni.