Í sumar tók Náttúruminjasafn Íslands þátt í átaksverkefni Vinnumálastofnunar um sumarstörf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri. Safnið auglýsti eftir námsmönnum á háskólastigi til starfa og voru sjö nemendur ráðnir til tveggja mánaða. Verkefnin voru ólík og tengdust vinnu við rannsóknir, skráningu muna og grafíska hönnun. Vinnan fór fram úti um land meðal annars á Breiðdalsvík. Vinnan við þessi verkefni gekk fádæma vel og vilja starfsmenn Náttúruminjasafnsins og umsjónarmenn verkefna þakka einstaklega góða samvinnu við nemendur og sömuleiðis Vinnumálastofnun sem skipulagði átakið.
Flokkun og skráning steinasafns á Breiðdalsvík

Verkefnið á Breiðdalsvík á sér nokkurra ára aðdraganda en Náttúruminjasafni Íslands hefur boðist að taka við og eignast eitt merkasta og stærsta steinasafn landsins, steinasafn Björns Björgvinssonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. 

Safnkosturinn samanstendur af 10 til 15 þúsund eintökum steinda og holufyllinga og er að grunni til þrjú steinasöfn sem Björn eignaðist, steinasöfn Reynis Reimarssonar, Kjartans Herbjörnssonar og Svavars Guðmundssonar.

Safnkosturinn var aðeins skráður að hluta og var því mikill fengur að fá jarðfræðingana Irmu Gná Jóngeirsdóttur og Madison Lin MacKenzie til að vinna að fullnaðarskráningu og myndatöku á safnkostinum í sumar. Umsjón með vinnunni fyrir hönd safnsins hafði Þóra Björg Andrésdóttir, jarðfræðingur.

Vinnan fólst í að skrá á stafrænt form og ljósmynda þann hluta safnkostsins sem þegar var skráður og einnig óskráð eintök. Skráðu þær Irma og Madison hvorki meira né minna en 4000 færslur í sumar ásamt því að pakka safnkostinum á viðunandi hátt og voru afköst þeirra og útsjónarsemi til fyrirmyndar. Meðal þeirra steinda sem þær skráðu í miklum fjölda eru jaspis, ópall, kalsedón, agat, onyx, bergkristall, sitrín, ametýst, kalsít, silfurberg, aragonít, flúorít, barrýt, skólesít, mesolít, mordenít, stílbít, heulandít, thomsonít, apófyllít, iilvaít og pýrít. Jarðfræðingarnir höfðu vinnuaðstöðu við skráninguna á Breiðdalsvík en greining, myndataka og pökkun sýnanna fór fram í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Stefnt er að að sýna þetta merka steinasafn á Breiðdalsvík og þegar er hafin vinna við að finna þar viðeigandi húsnæði til sýningahalds og fræðslu um jarðfræði Austurlands og einkum hina fornu megineldstöð í Breiðdal, sem var virk fyrir um 8–10 milljónum ára.
Stafræn vísindamiðlun til almennings

Elsa Rakel Ólafsdóttir, mastersnemi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands, starfaði sem grafískur hönnuður fyrir Náttúruminjasafnið í sumar. Starfssvið hennar var víðfeðmt en fólst einkum í aðstoð við korta- og myndvinnslu í tengslum við væntanlega ævisögu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem Sigrún Helgadóttir ritar.  Sigurður Þórarinsson var einn fremsti jarðfræðingur Íslendinga, þekktur á alþjóðavettvangi og var fátt í íslenskri náttúru honum óviðkomandi. Sérsvið hans var þó eldfjallafræði og lagði hann í raun grunninn að gjóskulagafræði, þar sem gjóskulög eldstöðva eins og Heklu eru notuð til að aldursgreina bæði fornminjar sem og jarðfræðilega atburði í jarðsögunni. Mörg korta Sigurðar sýna þessi fræði í einkar greinargóðu ljósi og eitt af verkefnum Elsu Rakelar var einmitt að hreinvinna þau fyrir ævisögu hans, en starfsmenn safnsins nutu jafnframt góðs af þekkingu hennar á sviði markaðsmála og nýtingu samfélagsmiðla.  

Líffræðileg fjölbreytni á Íslandi

Styrkár Þóroddsson líffræðingur vann við verkefni um eðli líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi þar sem sérstök áhersla er lögð á fjölbreytileika innan tegundar. Vinna Styrkárs snérist um að fara kerfisbundið yfir útgefið efni um rannsóknir á hryggdýrum, með sérstakri áherslu á vaðfugla, heimskautaref, hagamýs og háhyrninga. Hann tók saman upplýsingar um breytileika í svipgerð (útliti, atferli og lífssögu) og stofngerð; sem og þá vistfræðilegu þætti sem tengjast þróun og viðhaldi breytileikans. Verkefnið er hluti af stærra verkefni Náttúruminjasafnsins um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi sem stýrt er af dr. Skúla Skúlasyni. Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins og m.a. Háskólans á Hólum, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Hrafnamál / Hrafnaþing / Guð launar fyrir hrafninn

Þessi fyrirsögn endurspeglar fjölbreytni og margræðni hrafnsins í náttúru og menningu. Verkefnið felst í því að stefna saman náttúrufræðilegri og menningarlegri þekkingu á hrafninum í skapandi samræðu þannig að leggja megi grunn að nýrri og fjölþættri hugmynd sem gæti orðið fyrsti vísir að fjölfræðilegri fróðleiksnámu fyrir skólastarf á öllum stigum og innblástur fyrir hvers konar skapandi vinnu með hrafninn sem marghliða lífveru: sýningar, texta, myndbönd og kvikmyndir, tónlist, margmiðlun. 

Tveir nemendur, Katrín Vinter Reynisdóttir í MA-námi í ritlist og Rebecca Thompson í MA-námi í líffræði, voru ráðnir í verkefnið en það er unnið í umsjón Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings. Verkefni sumarsins fólst í því að skiptast á hugmyndum og byrja að safna sem fjölbreyttustum fróðleik um hrafninn sem smátt og smátt birtist á vef safnsins. Þá er stefnt að því að hefja á næstu misserum fjölfræðilegt og alþjóðlegt rannsóknarverkefni um það sem hrafnar hafa kennt mönnum í mismunandi menningarheimum.

Náttúrur og fornar frásagnir

Þetta verkefni er kjölfesta í starfi umsjónarmanns, Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings, við að byggja upp umhverfishugvísindi innan Náttúruminjasafnsins. Einn nemandi, Jon Wright, doktorsnemi í norrænni textafræði og BA nemi í íslensku fyrir erlenda stúdenta, starfaði við verkefnið í sumar. Verkefnið „Náttúrur og fornar frásagnir“ er styrkt af stærra verkefni sem kallast Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM:https://snorrastofa.is/snorrastofa/rannsoknir-og-fraedi/rim-verkefnid/) og nær yfir íslenskar frásagnarbókmenntir fram til siðaskipta. Staðhættir og landfræði eru þar snar þáttur sem getur endurspeglað náttúruþekkingu sem er gerólík nútímanum. Því þarf meðal annars að reyna að átta sig á hugsanlegum tengslum bókmenntastarfsemi miðalda við þessa þætti og verkefni Jons fólst í því að taka saman gagnasafn um ritunarstaði handrita allt til siðaskipta. Jon er þjálfaður handritafræðingur (rithandarfræðingur) og skilaði afburðagóðri skrá sem getur haft víðtæk not fyrir ofangreint verkefni sem og fyrir marga aðra fræðimenn sem starfa á þessum vettvangi, að tengja landið og staðhætti við bókmenninguna.