Fróðleiksbrunnur Náttúruminjasafnsins

Í byrjun febrúar opnuðum við á Náttúruminjasafni Íslands Fróðleiksbrunninn okkar, nýjan fræðsluvef safnsins á slóðinni frodleiksbrunnur.is. Á Fróðleiksbrunninum má finna hvers kyns fræðslu og leiki tengda náttúrunni fyrir fólk á öllum aldri, sérstaklega yngri kynslóðirnar. Efnið hentar alls staðar, bæði sem námsefni í grunn- og leikskólum, en ekkert síður utan skólans – heima, í sumarbústaðnum eða jafnvel í tjaldútilegunni.

Fróðleiksbrunninum er skipt í nokkra hluta. Fyrst er náttúrufræðsla, safn margs konar fræðslutexta um ýmsa þætti íslenskrar náttúru, einkum tengt vatninu, hafinu og lífríki landsins. Með tíð og tíma munu bætast í þennan pott fleiri fjölbreyttir textar tengdir öðrum þáttum í umhverfi okkar og náttúru, svo sem jarðfræði, veðri og samhengi manns í náttúrunni. Í náttúruleit eru myndir og fróðleikur sem leiða gesti Fróðleiksbrunnsins áfram í könnun sinni og rannsókn á umhverfinu, til dæmis mismunandi vistkerfum, landslagi og náttúrufyrirbærum sem við sjáum allt í kringum okkur.

Náttúruteikningar innihalda teikningar af margs konar dýrum sem lifa í náttúru Íslands, ásamt forvitnilegum fróðleik um hvert þeirra. Náttúrutilraunir samanstanda af áhugaverðum tilraunum sem skemmtilegt er að glíma við og framkvæma heima eða í skólanum og náttúruþrautir innihalda orðaleit, völundarhús og stafarugl sem eru spennandi en gagnleg verkefni til að auka orðaforða og brydda upp á umræðum um náttúruna. Sérstakur hluti fróðleiksbrunnsins inniheldur lengri fræðslutexta sem henta kennurum í kennslu um afmarkaða þætti náttúrunnar og íslensks lífríkis.

Vefurinn og efni hans hefur verið í smíðum síðustu tvö árin og við á safninu erum mjög stolt af honum. Við vonum að allir náttúruvinir og gestir safnsins nýti hann sem allra mest, bæði í leik og starfi. Við þiggjum með þökkum allar ábendingar og hugmyndir tengdar Fróðleiksbrunninum í tölvupósti á kennsla@nmsi.is.