Frú Halla Tómasdóttir sækir Náttúruminjasafn Íslands heim
Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, heimsótti Náttúruminjasafn Íslands á degi íslenskrar náttúru þann 16. september síðastliðinn.
Forsetinn skoðaði nýjar framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafnsins, Náttúruhús í Nesi, en framkvæmdir við húsið hafa staðið yfir síðastliðin misseri og er áætlað að húsnæðið verði tilbúið um næstu áramót. Þar kynnti starfsfólkið nýja og afar metnaðarfulla grunnsýningu safnsins fyrir forsetanum en sýningin mun snúast um hafið í allri sinni dýrð, með sérstaka áherslu á Norður-Atlantshafið, vistkerfi hafsins og líffræðilega fjölbreytni þess.
Þá var farið í Nesstofu ásamt Auði Hauksdóttur og Ágústu Kristófersdóttur en þar er undirbúningur hafinn að sýningu um Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands. Til stendur að tileinka Nesstofu dansk-íslensku vísindasamstarfi og er fyrirhuguð sýning hluti af átaksverkefni íslenskra stjórnvalda til að efla það samstarf en hægt er að lesa um verkefnið hér.

Starfsfólk Náttúruminjasafns Íslands tók á móti forseta Íslands í nýjum höfuðstöðvum safnsins, Náttúruhúsi í Nesi. Frá vinstri: Viðar Hreinsson, Rannveig Magnúsdóttir, Ragnhildur Guðmundsdóttir, frú Halla Tómasdóttir, Helga Aradóttir, Þóra Björg Andrésdóttir, Örn Jónasson, Snæbjörn Guðmundsson, Anna Katrín Guðmundsdóttir og Margrét Rósa Jochumsdóttir.
Í tilefni dagsins voru Höllu færðar bækurnar Sigurður Þórarinsson – mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur, sem gefin var út af Náttúruminjasafninu árið 2021, og Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson en Náttúruminjasafnið kom að útgáfu bókarinnar árið 2016. Einnig fékk frú Halla eintök af tímaritinu Náttúrufræðingnum en Náttúruminjasafnið stendur að útgáfu þess ásamt Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.
Starfsfólk Náttúruminjasafns Íslands færir Frú Höllu Tómasdóttur kærar þakkir fyrir að sækja safnið heim á þessum hátíðlega degi sem tileinkaður er íslenskri náttúru.