Gleði og stolt á Bessastöðum

„Ég tek við þessum verðlaunum með gleði og stolti og innilegu þakklæti til allra þeirra sem aðstoðuðu mig, enda voru skrif og útgáfa ævisögunnar svo sannarlega ekki einnar konu verk,“ sagði Sigrún Helgadóttir, rithöfundur þegar hún tók við Íslensku bókmenntaverðlaununum í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bók sína: Sigurður Þórarinsson, Mynd af manni I-II, sem Náttúruminjasafn Íslands gefur út.

Sigrún tekur við verðlaununum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands. 

Sigrún með útgefanda sínum, ráðherra og forsetahjónum. Frá vinstri: Lilja Alfreðsdóttir, Hilmar J. Malmquist, Sigrún, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. 

Sannkallað stórvirki

Verðlaunaverk Sigrúnar, sem telur um 800 blaðsíður í tveimur bindum, prýddar fjölmörgum ljósmyndum Sigurðar sjálfs, er sannkallað stórvirki. Sigrún vann að ævisögu Sigurðar í sjö ár og hafa bækurnar vakið verðskuldaða athygli og runnið út – en auk tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlaut ævisagan tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og mikið lof gagnrýnenda. 

Í lokaumsögn dómnefndar segir m.a.: „Í þessari lipru, aðgengilegu og skemmtilegu frásögn er fylgst með þróun íslensks samfélags í átt til nútímans; efnilega föðurlausa sveitadrengnum sem kemst til mennta með hjálp góðra karla og kvenna, næmur, listrænn og skemmtinn, jafnvígur á hug- og raunvísindi en kýs að leggja fyrir sig jarðfræði og verður forystumaður í þeirri grein hér á landi um leið og hann kemst í fremstu röð á heimsvísu.“

Hér má lesa umsögn dómnefndar í heild.

Þakkarræða Sigrúnar vakti verðskuldaða athygli en hún beindi m.a. sjónum að mikilvægi þess að leiðir náttúruvísinda og hugvísinda skiljist ekki.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra óskar Sigrúnu til hamingju með heiðurinn. Til vinstri er Þórunn Rakel Gylfadóttir, sem hlaut verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka. 

Fjölfróður vísinda- og listamaður

Í þakkarræðu sinni sagði Sigrún m.a. að Sigurður hefði ekki aðeins verið skemmtilegur raunvísindamaður heldur hafi hann haft yfirgripsmikla þekkingu og áhuga á mörgum sviðum, m.a. á bókmenntum. Hún vitnaði í Sigurð sem sagði eitt sinn: „Ég er þeirrar skoðunar, að fátt sé nútímamenningu hættulegra en það, að leiðir raunvísinda og hugvísinda skiljist um of og hefi einhvern tíma orðað það þannig, að án raunvísinda sé ekki hægt að lifa og án hugvísinda ekki vert að lifa á þessari jörð.“ 

Hér má lesa ræðu Sigrúnar í heild.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Höfundar fá einnig áritaðan verðlaunagrip, opna bók á granítstöpli með nafni sínu og bókar, en Jón Snorri Sigurðsson gullsmiður hannaði gripinn. 

Auk Sigrúnar hlutu þau Hallgrímur Helgason og Þórunn Rakel Gylfadóttir Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021, Hallgrímur í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af kjaftshöggum sem JPV útgáfa gefur út og Þórunn Rakel í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Akam, ég og Annika sem Angústúra gefur út.

 Lárus Karl Ingason, ljósmyndari á vegum FÍBÚT tók meðfylgjandi ljósmyndir. 

Verðlaunahafar ásamt forsetahjónunum, menningarmálaráðherra og formanni Félags íslenskra bókaútgefanda. Frá vinstri Heiðar Ingi Svansson, Lilja Alfreðsdóttir, Hallgrímur Helgason, Þórunn Rakel Gylfadóttir, Sigrún Helgadóttir, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. 

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins sem gefur bók Sigrúnar út, afhenti Guðna Th. Jóhannessyni diska með annars vegar heimildamynd um vísindastörf Sigurðar og hins vegar söngvum Sigurðar sem hljóðritaðir voru á árunum 1982-2012.