„Heillandi ferðalag“

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar eftir Sigrúnu Helgadóttur hlaut í gær tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og er ein þriggja bóka í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.

Fjöruverðlaunin eru bókmenntaverðlaun kvenna, trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi. Þau voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan.