Heimsókn forsetahjónanna í Náttúruhús í Nesi
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Eliza Reid, forsetafrú, heimsóttu framtíðar höfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands í Náttúruhúsi í Nesi í síðustu viku. Tilefnið var 50 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar þann 9. apríl síðastliðinn.
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins, tók á móti forsetahjónunum og föruneyti þeirra og sagði frá fyrirhuguðum framkvæmdum við húsið og sýningargerðinni sem nú er í fullum gangi. Jafnframt fylgdu Ragnhildur Guðmundsdóttir, líffræðingur og Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur forsetahjónunum út í Gróttu og ræddu jarðfræði Seltjarnarness og lífríkið í fjörunni en það er einmitt hluti af efnistökum nýju grunnsýningar safnsins sem mun hverfast um hafið og lífríki þess, með áherslu á framtíðina, mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og áhrif loftslagsbreytinga.
Við þökkum forsetahjónunum kærlega fyrir komuna og óskum Seltjarnarnesbæ innilega til hamingju með kaupstaðarafmælið.
Ljósmyndir: Silla Páls fyrir Seltjarnarnesbæ
Hilmar J. Malmquist tók á móti forseta Íslands
Forsetahjónin skoðuðu aðal sýningarsal Náttúruhússins þar sem beinagreind íslandssléttbaks mun hanga uppi. Frá vinstri, Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri, Eliza Reid, forsetafrú, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður.
Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur segir forsetahjónunum frá áhugaverðri jarðfræði Seltjarnarness