Heimsókn Karen Hammerness frá American Museum of Natural History
Í vikunni sem leið fékk Náttúruminjasafnið heimsókn frá Karen Hammerness menntasérfræðingi við American Museum of Natural History sem staðsett er í New York. Margir kannast ef til vill við það safn úr bíómyndinni Night at the Museum en um er að ræða stórglæsilegt náttúruminjasafn sem fer fremst í flokki jafningja á mörgum sviðum. Karen leiðir rannsóknir á sviði menntunar og gæðamats við safnið en hún hefur gefið út fjölda ritrýndra greina um menntun kennara, hlutverk safna í menntun og um gæðamat á fræðslustarfi náttúruminjasafna sem hún byggir á rannsóknum sem hún hefur staðið fyrir á American Museum of Natural History. Þá hefur hún einnig gefið út bækur um kennaramenntun. Karen er stödd á Íslandi á vegum Fullbright stofnunarinnar og hélt hún opinn fyrirlestur í fyrirlestraröð Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem ber nafnið Menntakerfi á tímamótum – alþjóðlegar áskoranir og tækifæri en erindið nefndist Kennaramenntun í kastljósinu. Hvað er að gerast í öðrum löndum?

Frá vinstri, Helga Aradóttir, Karen Hammerness, Anna Katrín Guðmundsdóttir og Ragnhildur Guðmundsdóttir.
Náttúruminjasafn Íslands tekur á móti fjölda nemenda ár hvert og hefur hlutverki að gegna við miðlun og fræðslu til menntakerfisins á sviði náttúrufræða. Það er því áhugavert að kynnast því hvernig önnur náttúruminjasöfn vinna en American Museum of Natural History hefur tekið þátt í að undirbúa náttúrufræðikennara í um 100 ár og eru nú með eigin kennaramenntun á meistarastigi sem og endurmenntunarnámskeið sem yfir 900 kennarar nýta sér á ári hverju. Að auki tekur safnið á móti um 1000 nemendum á grunnskólastigi í viku hverri. Safnið hefur um langt skeið verið í virku samstarfi við menntamálaráðuneyti New York borgar og er því mikilvægur innviður samfélagsins í bæði kennaramenntun sem og náttúrufræðimenntun bæði fyrir nemendur og almenning.