Hrygning urriðans í Öxará

Þingvellir skarta einstakri náttúrufegurð á haustin. Hluti af tilbrigðum þeirrar fegurðar er urriðinn sem þá gengur til hrygningar í Öxará úr Þingvallavatni. Fjöldi urriðanna er slíkur að árbotninn virðist hreinlega kvikur.

 

Stór hrygningarstofn

Árlegar rannsóknir á göngum urriðans á riðin í Öxará hafa sýnt að stofn urriðans sem hrygnir þar hefur vaxið gríðarlega frá síðustu aldamótum, eða frá því að vera innan við eitthundrað fiskar í það að vera á þriðja þúsund fiskar. Það er því ekki að undra að líflegt sé um að litast þegar allur sá fjöldi kemur saman á hrygningarstöðvunum sem spanna aðeins tæplega eins kílómetra langan kafla; frá flúðunum neðan Drekkingarhyls og niður undir árósinn. Urriðinn í Öxará er stærsti stofn Þingvallaurriða en urriðastofninn í Ölfusvatnsá, sem rennur í sunnanvert Þingvallavatn, er einnig orðinn burðugur þótt mun minni sé.

Hundruð urriða (svartir flekkir í vatninu) á efsta hluta hrygningarsvæðisins í Öxará.

Hrygning urriðans nær hámarki í október. Fyrstu hrygningarfiskarnir birtast ýmist í ágúst eða september og þeir síðustu kveðja riðstöðvarnar ýmist í desember eða janúar. Á þeim tíma verða mikil umskipti í hitafari árinnar. Í upphafi blómstra ástir urriðans í blíðum árstraumi en ástarvakt síðhrygnandi urriða er hinsvegar kalsöm, ekki síst þegar áin umvafin ís silast áfram rétt ofan frostmarks.

Líf stórurriðans

Þingvallaurriðar eru svokallaðir stórurriðar og bera það nafn með réttu líkt og breiðfylking hrygningarurriðans í Öxará vitnar um. Helstu sérkenni stórurriðans eru annarsvegar þau að þeir ná mikilli stærð áður en þeir verða kynþroska og hinsvegar þau hversu gamlir þeir verða. Gnægð murtunnar, sem er smæsta bleikjugerðin í Þingvallavatni, stendur undir þessum mikla vexti hjá þingvallaurriðanum sem skilar sér í íturvöxnum urriðum í hundruða og þúsunda tali. Öflugur skrokkur stóruurriðanna gerir þeim kleift að skila miklu magni af hrognum og sviljum til hrygningarinnar, en nýtist auk þess á tvennan hátt öðru fremur þegar upp í Öxará er komið. Hjá hængunum kemur líkamsstærðin nefnilega við sögu þegar þeir berjast um hrygnurnar og hjá hrygnunum þegar þær grafa holur fyrir hrogn sín.

Hrygna á hrygningarholu og stórvaxinn hængur.

Hængarnir

Þegar fleiri en einn hængur eru um hverja hrygnu þá er það einatt stærsti hængurinn sem skipar sér næst hrygnunni og holu hennar. Vonbiðlar eru þó skammt undan, þeir meta kosti sína í stöðunni með því að gera atlögu að hængnum sem næstur er hrygnunni. Þá reynir sannarlega á stærð, krafta, skráp og tennur, því ekkert er til sparað þegar þeir synda bítandi hver í annan til að sannreyna styrkleika sinn. Á milli þessara áfloga meta hængarnir gjarnan styrk hvors annars án átaka og það atferli má sjá af árbakkanum líkt og slagsmálin sjálf. Þó fátíðir séu, þá finnast einnig á hverju hausti örfáir mjög smáir urriðahængar sem hafa náð snemmbærum kynþroska. Þeir eru ekki hæfir í slagsmál í þessum þungavigtarflokki og fara því aðrar leiðir til að ná sínu fram.

Urriðahængur ræðst að keppinaut sínum með hvoftinn upp á gátt.

Hrygnurnar

Hrygnurnar velja sér hrygningarsvæði í heppilegum straumi. Þær grafa holur í árbotninn með því leggjast á hliðina og lemja sporðstirtlunni og sporðblöðkunni síendurtekið í botninn. Í hvert skipti fer nokkuð af fíngerðasta botnsetinu upp í strauminn sem flytur það í burtu og eftir situr grófara set. Hængur eða hængar bíða átekta og athuga reglulega hvort hrygnan er tilleiðanleg í hrygningu með því að synda upp að hlið hennar og skjálfa þar örskotsstund. Oftast skilar það engu en inn á milli koma stóru stundirnar þegar samstilltur titrandi ástarbrími hængs og hrygnu skilar samtímis hrognum og sviljum í holuna góðu sem hrygnan grefur síðan yfir.

Íhugul urriðahrygna.

Samsetning hrygningarstofnsins

Þingvallaurriðinn getur orðið allt að 19 ára gamall og þetta langlífi ásamt þeirri hegðun hans að hrygna árum saman yfir æviskeið sitt, gerir það að verkum að á riðunum í Öxará eru samankomnir urriðar af 15 árgöngum eða fleiri þegar best lætur. Mikil fjölbreytni er í þeim hópi, allt frá rígavænum hængum og hrygnum sem eru yfir 10 kíló að þyngd til horaðra gamalla urriða sem hafa hrygnt þar árum saman, og eru þá gjarnan að sækja sinn síðasta ástarfund líkt og holdafarið vitnar um.

Urriðapar.

Tignarlegir urriðarnir í Öxará eru náttúrugersemi. Þeir hafa lifað í Þingvallavatni frá því að síðustu ísöld lauk og eru afkomendur ísaldarurriða sem lifði þá víða um norðurhvel. Það er okkar Íslendinga að sjá til þess eftir fremsta megni að urriðinn syndi áfram um víðáttur vatnakerfis Þingvallavatns um ókomna tíð.

Höfundur texta og neðanvatnsmynda: Jóhannes Sturlaugsson.

Heimildir:

Jóhannes Sturlaugsson. Óbirt gögn frá rannsóknum í Öxará. Laxfiskar.

Ítarefni

Jóhannes Sturlaugsson. Þingvallaurriðinn – Upplýsingar um lífshætti og rannsóknir. Laxfiskar.

Sótt 21.10.2020 af  http://laxfiskar.is/index.php?option=com _content&view=article&id=130&Itemid=145&lang=is