Sýningin Hvað býr í þjóðgarði stendur fram á vor 2024 í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar.

Hvað býr í Þjóðgarði?

Fimmtudaginn 31. ágúst opnaði sýningin Hvað býr í þjóðgarði? í sérsýningarrými Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni. Sýningin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs og er innblásin túlkun á þjóðgarðinum í heild sinni, landslagi hans, sögu og samfélaginu umhverfis garðinn.

Miðpunktur sýningarinnar er umfangsmikill og litskrúðugur skúlptúr sem sýnir á áhrifamikinn og hugvitssamlegan hátt náttúrufyrirbrigði og fjölbreytileg stef þjóðgarðsins, en skúlptúrinn er unninn af hönnuðum og listafólki Studio Irmu. Með sýningunni er gestum þannig veitt áþreifanleg innsýn í ævintýraheim Vatnajökuls og náttúruna umhverfis hann.

Sýningin er farandsýning sem mun standa uppi í Perlunni fram á vor 2024 áður en hún leggur land undir fót. Ætlunin er að sýningin ferðist á milli gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs næstu árin, heimafólki, sem og innlendum og erlendum ferðamönnum til fræðslu og yndisauka.

Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands hélt tölu ásamt Ingibjörgu Halldórsdóttur framkvæmdastjóra þjóðgarðsins sem opnaði svo sýninguna í kjölfarið.

Hópurinn á bakvið sýninguna.