Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda – nýtt verkefni

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda (The Nordic Biodiversity Framework) er samstarfsverkefni BIODICE sem nýlega fékk styrk (um 31 milljón ISK) frá Norræna vinnuhópnum um líffræðilega fjölbreytni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Megintilgangur verkefnisins er að styðja við innleiðingu á Kunming-Montreal samningnum um líffræðilega fjölbreytni á Norðurlöndunum.

Bakgrunnur og sýn

Viðfangsefni verkefnisins er tap á líffræðilegri fjölbreytni sem er eitt alvarlegasta vandamál okkar tíma. Árið 2022 skrifuðu 196 þjóðir, þar á meðal öll Norðurlöndin, undir Kunming-Montreal samninginn um líffræðilega fjölbreytni á COP15 ráðstefnu samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Sýn markmiðanna, sem eru mjög metnaðarfull, er heimur þar sem fólk lifir í sátt og samlyndi með og í náttúrunni. Meginmarkmið til ársins 2050 eru vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbær nýting náttúruauðlinda, viðhald og efling vistkerfa og þeirri þjónustu sem þau veita, á sanngjarnan hátt fyrir alla. Einnig eru sértækari markmið sem ætlunin er að ná fyrir árið 2030.

Markmið

Verkefnið Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda snýst um að rannsaka stöðu og aðferðir Íslands, Danmerkur og Finnlands við innleiðingu ofangreinds samnings um líffræðilega fjölbreytni og styðja við það ferli með faglegum greiningum og tillögum. Þetta verður gert með markvissri upplýsingaöflun um líffræðilega fjölbreytni, stefnu, aðgerðir og árangur. Einnig verður komið á fót neti vísindamanna, sérfræðinga, stjórnvalda og hagsmunaaðila og haldnir formlegir vinnufundir og málþing. Með því að bera saman rannsóknir og stefnur þvert á Norðurlöndin þá geta þjóðirnar lært hver af annarri sem gagnast í þessari vinnu. Niðurstöður verkefnisins munu nýtast stjórnvöldum við innleiðingu á Kunming-Montreal samningnum um líffræðilega fjölbreytni.

Samstarfshópurinn

Verkefnið er samstarf sérfræðinga frá Íslandi, Danmörku og Finnlandi. Verkefnisstjóri er Skúli Skúlason hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Hólum. Aðrir sem leiða verkefnið eru Katherine Richardson við Center for Macroecology, Evolution, and Climate hjá Globe Institue við Kaupmannahafnarháskóla í Danmörku og Hanna-Kaisa Lakka hjá Department of Biological and Environmental Sciences, Háskólanum í  Jyväskylä í Finnlandi.

Aðrir samstarfsaðilar eru Carsten Rahbek og Lars Dinesen við Center for Macroecology, Evolution and Climate hjá Globe Institute, Ole Sandberg hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskóla Íslands, Ragnhildur Guðmundsdóttir hjá Náttúruminjasafni Íslands, Rannveig Magnúsdóttir hjá Náttúruminjasafni Íslands og Landvernd og K. Emily Knott og Katja Räsänen hjá Department of Biological and Environmental Sciences, Háskólanum í Jyväskylä í Finnlandi.

BIODICE leiðir verkefnið en það er samstarfsvettvangur stofnana, einstaklinga og fyrirtækja um eflingu þekkingar og skilnings á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Þar að auki er áhersla er lögð á eflingu rannsókna, menntunar og stefnumótunar á málefnum sem tengjast líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi.