Dagur líffræðilegrar fjölbreytni    

Fréttatilkynning frá Náttúruminjasafni Íslands í tilefni af 22. maí,
degi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Náttúruminjasafn Íslands gerðist nýlega þátttakandi í alþjóðlegum samstarfsvettvangi til verndar líffræðilegri fjölbreytni, Global Coalition #UnitedforBiodiversity, og er safnið fyrsta stofnunin á Íslandi sem stígur það skref.

Þverþjóðlegt samstarf rannsókna- og fræðslustofnana um verndun líffræðilegrar fjölbreytni markar ný tímamót í viðbrögðum alþjóðasamfélagsins við þeim alvarlega vanda sem steðjar að mannkyni vegna ósjálfbærrar umgengni okkar við náttúruna. Þótt við séum fá hér á Íslandi getum við lagt margt gott til í öflugu samstarfi á sviði vísinda og fræðslu og með góðum fordæmum í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, þ.m.t. verndun hennar. Þátttaka Náttúruminjasafnsins í alþjóðlegu átaki til verndar líffræðilegri fjölbreytni verður vonandi til þess að hvetja aðrar stofnanir til dáða þannig að standa megi vörð um búsvæði og lífríki á Íslandi og á hnettinum öllum, segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminasafns Íslands.

Meiri ógn steðjar að líffræðilegri fjölbreytni en nokkru sinni á okkar tímum og telja vísindamenn að vegna athafna mannsins sé allt að ein milljón tegunda nú í útrýmingarhættu í heiminum. Þessu til viðbótar er fjölbreytni innan tegunda og þeir ferlar sem stýra og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni í hættu vegna eyðingar búsvæða og vistkerfa. Náttúruminjasafn Íslands er stolt af þátttöku í þessu verkefni ásamt ríflega 200 stofnunum og samtökum um allan heim sem hafa skuldbundið sig til að vernda fjölbreytileika lífríkis á jörðinni.

Virginijus Sinkevicius framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði umhverfismála ýtti á árinu 2020 úr vör heimsátaki sem nefnist „Samstaða um líffræðilega fjölbreytni“. Var það í aðdraganda CoP 15 fundar Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem Kína mun hýsa í október n.k. þar sem áætlanir um vernd líffræðilegrar fjölbreytni á næsta áratug verða samþykktar. Hvatt er til þess að dýragarðar, grasagarðar, rannsóknastofnanir, háskólar, sædýra- og vatnalífsgarðar og söfn taki upp hanskann fyrir náttúruna og skori á leiðtoga og ráðamenn til að setja metnaðarfull markmið sem veita líffræðilegri fjölbreytni raunverulega vernd á hnattræna vísu.

„Grasagarðar heimsins, dýragarðar, almenningsgarðar, söfn, rannsóknastofnanir, sædýra- og vatnalífsgarðar sýna okkur berlega hvað það er sem við þurfum að vernda og koma aftur í samt lag. Við verðum án tafar að grípa til aðgerða á öllum sviðum og stigum, á heimavelli jafnt og á heimsvísu, ella verða þetta einu staðirnir þar sem við getum upplifað náttúruna. Þá væri mannkyn komið í þrot. Það er kominn tími til að við endurtengjum okkur við náttúruna.“  – Virginijus Sinkevičius

Líffræðileg fjölbreytni á Íslandi og einstök vistkerfi

Líffræðileg fjölbreytni og búsvæði á Íslandi eru einstök og helgast það einkum af landfræðilegri legu og einangrun landsins í Norður-Atlantshafi, ungum jarðfræðilegum aldri og mikilli eldvirkni. Vegna þess að aðeins eru liðin um tíu þúsund ár frá síðasta jökulskeiði, býr Ísland yfir ungum búsvæðum og kviku lífríki. Hér eru tiltölulega fáar tegundir ef miðað er við nágrannalöndin, en fjölbreytt búsvæði, einkum í tengslum við eldvirku beltin og ferskvatn. Þessar einstöku aðstæður veita lífverum óvenjuleg tækifæri sem kalla á sérhæfingu og sérstaka aðlögun. Ísland og hafið umhverfis landið er einnig heimkynni stórra stofna fugla, fiska og sjávarspendýra, bæði staðbundinna sem og far- og umferðartegunda, sem treysta á heilbrigða starfsemi vistkerfa í þessum norðlæga heimshluta.

Náttúruminjasafn Íslands og fjölbreytni náttúrunnar

Á Náttúruminjasafni Íslands eru stundaðar rannsóknir og miðlun upplýsinga um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi. Lögð er áhersla á að greina, skrásetja, skilja og miðla upplýsingum um ferlana sem skapa og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi og hvernig þessir ferlar valda óvenju mikilli fjölbreytni innan tegunda. Þekkt dæmi um þetta er bleikjan (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni en þar hafa fjögur mjög ólík afbrigði þróast og nýtir hvert afbrigði sér mismunandi fæðu og búsvæði í vatninu. Með því að skrásetja og rannsaka þennan breytileika getum við öðlast skilning á því hvernig nýjar tegundir myndast og hvaða áhrif líffræðilegur breytileiki innan tegundar hefur á starfsemi vistkerfa.

Rannsóknir Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila munu efla og stuðla að alhliða þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Náttúruminjasafnið stefnir einnig að því að tryggja að niðurstöðum rannsóknanna verði miðlað og þær gerðar aðgengilegar almenningi, skólakerfinu og þeim sem koma að skipulagningu og stefnumótun um nýtingu náttúrunnar, þ.m.t. verndun.

Með undirritun áskorunar Alþjóða samstöðu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni #UnitedforBiodiversity skuldbindur Náttúruminjasafn Íslands sig til að vernda líffræðilega fjölbreytni bæði á Íslandi og hnattrænt. Náttúruminjasafn Íslands skorar á allar stofnanir á Íslandi og um heim allan að taka þátt í þessu brýna verkefni.

Frekari upplýsingar um átakið Global Coalition #UnitedforBiodiversity og hvernig taka má þátt í því er að finna á vefsetrinu:

https://ec.europa.eu/environment/nature/biodiversity/coalition/index_en.htm