Nýr Náttúrufræðingur kominn út

Út er komið 2.-3. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. Í heftinu er m.a. fjallað um nýlegar rannsóknir og kenningar á viðhofum ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna en einnig um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Þá er fjallað um friðrildi og tunglfisk en forsíðugreinin er um búsvæði og vernd vaðfugla á Íslandi. Nýja heftið er 80 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Vaðfuglalandið Ísland

Tómas Grétar Gunnarsson skrifar um Búsvæði og vernd íslenskra vaðfugla. Ísland er einstakt vaðfuglaland en þeir eiga margir í vök að verjast vegna hnignandi búsvæða. Skýringarinnar er að leita í hlýnandi loftslagi en einnig í breyttum búskaparháttum og aukinni skógrækt. Nokkrir vaðfuglar, t.d. heiðlóa og hrossagaukur, eru svokallaðar ábyrgðartegundir á Íslandi, sem þýðir að hátt hlutfall Evrópustofns tegundarinnar verpir hér eða fer um landið í miklum mæli á fartíma. Í greininni tekur Tómas Grétar saman niðurstöðu rannsókna á búsvæðum vaðfugla á Íslandi og setur fram tillögur um vernd þeirra, sem byggjast á núverandi þekkingu á búsvæðavali fuglanna.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Umferð um óbyggðir virðist hafa verið almennari á fyrstu öldum eftir landnám en síðar varð, bæði til Alþingis og til verstöðva landshluta á milli. Þar á meðal voru ferðir yfir Vatnajökul, en kólandi veðurfar 1300–1900, framgangur skriðjökla ásamt vaxandi beyg af útilegumönnum varð til þess að slíkar ferðir lögðust af og dró þá fljótt úr þekkingu manna á hálendinu. Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Sú fyrsta nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – minni jökull í grænna umhverfi.

Daniel Bruun ríður hér úr Maríutungum upp á Brúarjökul 3. ágúst 1901 í fylgd Elíasar Jónssonar á Aðalbóli. Teikning Daniel Bruun.

Ferðamennska um víðerni og óbyggðir

Ferðamennska á mannöld – Jarðsambönd ferðafólks við virkjanir nefnist grein eftir Edward H. Huijbens og fjallar um samband ferðafólks við virkjanir og víðerni. Edward greinir frá könnun meðal ferðafólks á Hengilssvæðinu sumarið 2017 og fjallar um þá þversögn að þrátt fyrir að gestir verði varir við ýmis ummerki mannvistar og virkjanaframkvæmda upplifa þeir svæðið sem víðerni og ósnortna náttúru.

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa um merkingu hugtakanna víðerni, óbyggðir og miðhálendi í fyrri grein sinni um Hálendið í hugum Íslendinga. Þær beina sjónum að uppruna þessara hugtaka og greina frá niðurstöðum spurningakönnunar sem gerð var meðal Íslendinga á afstöðu til þeirra. Niðurstöðurnar sýna að Íslndingar eru mun umburðarlyndari gagnvart mannvirkjum á víðernum en á miðhálendinu og í óbyggðum.

Á fjöllum. Ljósm. Anna Dóra Sæþórsdóttir.

Tunglfiskur, 32 cm langur. Ljósm. Jónbjörn Pálsson.

Tunglfiskar við Ísland

Ólafur S. Ástþórsson og Jónbjörn Pálsson hafa tekið saman gögn um fund tunglfiska við Ísland. Greinin nefnist Tunglfiskur (Mola mola) á Íslandsmiðum í ljósi veðurfarsbreytinga.

Tunglfiskar geta orðið yfir þrír metrar á lengd og tvö tonn að þyngd. Tunglfiskurinn lifir í hitabeltinu og í tempruðum hafsvæðum, en skráð hafa verið 32 tilfelli þar sem þennan sérkennilega fisk hefur rekið á fjörur, hann sést eða veiðst við Ísland allt frá 1845. Komunum fjölgaði verulega í upphafi 21. aldar og sérstaklega árið 2012 þegar 7 tilfelli voru skráð. Rímar það við hækkandi yfirborðshita í Norður-Atlantshafi en flesta tunglfiskana hefur rekið á fjörur á suður- og vesturströndinni þar sem aðflæði hlýs Atlantshafssjávar er mest.

Nokkrir  fiskar yfir 2 metrar á lengd hafa fundist við Ísland, t.a.m. rak einn á land 1. ágúst 2012 sem var 202 cm á lengd.

Rauðvínssólgin fiðrildi

Næturfiðrildi virðast sólgin í rauðvín ef marka má tilraun Björns Hjaltasonar, sem safnaði auðveldlega 8 tegundum þeirra á bönd sem legið höfðu í rauðvíni. Markmiðið var að ljósmynda fiðrildin og greina til tegunda. Grein Björns nefnist Fiðrildi næturinnar fönguð og í henni má fræðast betur um veiðiaðferðina.

Auk framangreinds er í 2.–3. hefti Náttúrufræðingsins skýrsla stjórnar og reikningar Hins íslenska náttúrufræðifélags fyrir árið 2019, ritdómur um bók Helga Hallgrímssonar, Vallarstjörnur, einkennisplöntur Austurlands og leiðari sem ritstjóri skrifar í tilefni af 90. árgangi Náttúrufræðingsins.

Aðmíráll sem settist á rauðvínsband í september 2019. Ljósm. Björn Hjaltason.